1.1 C
Selfoss

Aðventuheimsókn með fortíðina í farteskinu

Vinsælast

Dillandi skemmtileg, einlæg og áhugasöm börn. Hún var ánægjuleg, heimsókn Ragnhildar safnkennara á Byggðasafni Árnesinga til Þorlákshafnar einn fallegan nóvembermorgun fyrir stuttu. Förinni var heitið í Grunnskólann í Þorlákshöfn með þrjár eftirgerðir af Miðengistrénu okkar á safninu. Krakkarnir í 2. bekk höfðu samþykkt að skreyta trén í ár fyrir safnið og þau voru afar vel undirbúin og höfðu útbúið einstaklega fallegt og stórsniðugt skraut ásamt kennurum sínum Erlu Sif Markúsdóttur, Hrönn Guðfinnsdóttur og Sigríði Ósk Jensdóttur, stuðningsfulltrúa.

Krakkarnir höfðu farið út og safnað trjágreinum sem þau síðan skreyttu með borðum og tölum. Útkoman hreint út sagt frábær, lítil jólatré prýða nú trén sem hafa fengið heiðurssess á jólasýningu Byggðasafns Árnesinga. Lítil jólatré, hvert með sinn karakter og sína stjörnu á toppnum í formi tölu sem áður hafði annan tilgang. Inn á milli eru hjörtu gerð úr bók sem hafði lokið hlutverki sínu. Börnin klipptu blöðin í misstóra renninga sem þau síðan brutu í tvennt, röðuðu í stærðarröð og festu saman.

Heimsóknin var einnig skemmtileg samverustund með þessum áhugasömu og duglegu krökkum sem tóku vel á móti gestinum. Við skoðuðum í sameiningu líkan af torfbæ sem rímaði vel við stutta frásögn af jólum Þóreyjar litlu á Upphólum fyrir hartnær 100 árum. Þá var Þórey 7 ára eins og gestgjafarnir í Þorlákshöfn. Bærinn Upphólar stóð miðja vegu milli Gullfoss og Geysis og svo vel vill til að þessi áhugaverða frásögn Þóreyjar á æskujólunum hefur ratað til safnsins. Ýmislegt fannst krökkunum umhugsunarvert og nokkuð frábrugðið því sem þau þekkja í dag en sumar jólahefðir hafa lítið breyst. Jólahátíðin er enn tilbreyting frá hversdagsleikanum og sá tími ársins þar sem við gerum vel við okkur og höldum heilög jól.

Byggðasafn Árnesinga

Nýjar fréttir