7.8 C
Selfoss

Hin nýja, undursamlega og ómissandi jólastjörnuspá Dagskrárinnar

Vinsælast

Mynd: Freepik.

Vatnsberinn 20. janúar – 18. febrúar

Kæri vatnsberi, hvaða nýjungum bryddaðir þú uppá í ár? Það hvað þú getur verið nýungagjarn getur komið öðrum í opna skjöldu, en ekki láta það á þig fá. Þó þú sért með svart jólatré með bláum kúlum ætti það bara að vera öðrum innblástur til að þora að tjá sig í gegnum mátt skreytinganna.

Þú veist ekkert betra en að umvefja þig öllu fólkinu þínu og vildir helst að þið mynduð hittast aðra hverja viku, ekki bara um jólin. Það besta sem þú getur gert er að neyða boðskortum í næstu veislu upp á vini og ættingja um hátíðarnar því þá er erfiðara að segja nei. Þú gætir jafnvel gefið öllum upplifun með sjálfum þér í jólagjöf. Já, gerðu það, það er góð hugmynd!

Mynd: Freepik.

Fiskarnir 19. febrúar – 20. mars

Kæri fiskur, ertu nokkuð að kafna úr stressi? Þú ert vafalaust búinn að föndra heilan helling af jólagjöfum, hvort sem er í formi handverks eða samsetninga fagurmótaðra matarkarfa með reykta silungnum sem þú veiddir í Vola í sumar. Þú hefur unun af því að gefa af þér og þarft að passa þig að muna að þú mátt líka þiggja, það getur verið ansi ljúft að gleyma sér í fallegum hlutum sem maður fær að gjöf.

Ekki láta jólastress annarra slá þig útaf laginu. Það er erfitt að vera jafn tilfinninganæmur og þú ert og taka allt inn á sig en í ár ættir þú að prófa að sitja hjá og láta fjölskyldu og vini sjá um stressið. Þó þú sért vissulega ómissandi þá þarf ekki allt að falla á þínar herðar og þú ættir að vera óhræddur við að útbýta verkefnum, fólkið þitt gæti jafnvel komið þér á óvart.

Mynd: Freepik.

Hrúturinn 21. mars – 19. apríl

Kæri hrútur, ertu spenntur fyrir því að eyða tíma með ástvinum um jólin? Jólin eru yfirleitt rammaföst, eins og þú kýst að hafa allt í kringum þig. Ef eitthvað bregður út af vananum ferð þú allur í hrút (sástu hvað ég gerði þarna?).

Þú verður að gera þitt besta til að vera opinn fyrir breytingum þó þér þyki best að hafa stjórn á öllu sem á sér stað í þínu lífi, en tímarnir breytast og mennirnir með og allt verður léttara ef þú bara leggst upp í sófa með tærnar upp í loft, eina ískalda malt&appelsín og færð þér nokkrar sörur á meðan þú fylgist með brjáluðu börnunum í fjölskyldunni eyðileggja jólaskrautið þitt. Þú kaupir bara nýtt á útsölum á milli jóla og nýárs.

Mynd: Freepik.

Nautið 20. apríl- 20. maí

Kæra naut, er nokkuð komið ryk á jólagjafirnar sem þú keyptir í sumar? Þú býrð yfir stöðugleika sem fjölskylda og vinir dást að. Það hefur þó verið nóg að gera í aðdraganda desember og þér líður eins og verslunarmannahelgin sé nýafstaðin, þess vegna kom sér vel að kaupa allar jólagjafirnar í sumar, á meðan hitinn yljaði stuttbuxnaklæddum íslendingum og þú stalst til að versla eins og eina eða tvær jólagjafir í símanum, liggjandi í fellihýsinu, brosandi yfir þínum eigin skipulagshæfileikum.

Þó þú sért með allt á hreinu máttu ekki gleyma að njóta, lífið er núna, svo ekki voga þér að fara að bóka einhverja sumarfrísstaði í jólafríinu, þó það kunni að vera freistandi.

Mynd: Freepik.

Tvíburarnir 21. maí – 20. júní.

Kæri tvíburi, er erfitt að vita ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga? Þessi blessuðu jól komin aftur og þú fastur í hringiðu jólaskreytinga, jólatónleika, jólagjafainnkaupa, jólakortaskrifa, smákökubaksturs og alls þess sem maður þarf að klára fyrir… blessuðu jólin. Þú ert snjall og hefur allt of mörg áhugamál sem mega alveg sitja á hakanum ein jól. Í alvöru.

Þú mátt líka alveg bara baka eina sort og semja við fjölskyldumeðlimi um að fara saman í ferðalag frekar en að versla handa þeim gjafir sem týnast í amstri dagsins. Til að koma í veg fyrir að þetta þyrmi allt yfir þig væri eflaust best að segjast bara vera veikur þegar allt of mikið er að gerast um eina helgi og eyða tíma í að gera ekki neitt nema borða þessa einu sort af smákökum og horfa á allar jólabíómyndirnar sem sjónvarpið þitt hefur uppá að bjóða, þá ættir þú að geta mætt brattur og endurnýjaður inn í jólatörnina.

Mynd: Freepik.

Krabbinn 21. júní – 22. júlí.

Kæri krabbi, ertu ekki spenntur? Þér þykir svo gott að fá að vera heima, í þínu náttúrulegu umhverfi, umvafinn þínum bestu og jólin eru einmitt tíminn til að fá þessar óskir uppfylltar, hvað þá þegar fríið nær inn í vikuna, þvílíkur bónus!

En mundu að þó þú étir yfir þig um jólin þarftu bara að drekka nóg af vatni í janúar og saltið og sörurnar verða búnar að renna af þér fyrir páska. Þú mátt ekki gleyma þér í stressinu sem getur fylgt jóla umstanginu, leyfðu þér að njóta og gefðu af þér ef þú hefur tækifæri til þess, því það er jú betra að gefa en þiggja og þú með þitt stóra hjarta færð svo sannarlega mikið út úr því að gefa góðverk í jólagjöf.

Mynd: Freepik.

Ljónið 23. júlí – 22. ágúst

Kæra ljón, nú er tími fallegra skemmtana, skreytinga og gleði og þú ert einmitt týpan til þess að njóta þess að skemmta þér og öðrum. Nýja árið mun færa þér ýmsar áskoranir en þín sterka hlið er að takast á við málin hreint og beint og félagsveran þú munt óvænt eignast nýtt áhugamál og vini sem mun koma þér í gegn um alla hugsanlega erfiðleika.

Mundu svo um hátíðarnar að þú mátt ekki fara alveg fram úr þér en njóttu þess að eyða tíma með þeim sem eru þér nánir, það þarf oft ekki mikið til að gleðja stóra sem smáa, unga sem aldna. Kíktu á internetið og finndu einhvern skemmtilegan leik til að koma með í jólaboðið, hann mun slá í gegn!

Mynd: Freepik.

Meyjan 23. ágúst – 22. september

Kæra Meyja, þú átt það til að hafa of miklar áhyggjur og hafa þörf fyrir að skipuleggja þig um of. Jólamánuðurinn getur reynst erfiður en reyndu að slaka á, njóta og lifa í núinu. Tíminn líður hratt og það er mikilvægt að gefa sér líka tíma til að hugsa vel um sjálfa sig, ekki bara alla hina.

Ef þú tekur smá skref til baka og leyfir öðrum að hjálpa þér mun þessi árstími reynast þér mun auðveldari og minnka líkurnar umtalsvert á því að jólasteikin brenni eða það kvikni í jólatrénu. Það gæti jafnvel auðveldað þér ögn að sleppa smá takinu, kaupa dagbók og byrja frekar að skipuleggja nýja árið með einhverju spennandi og skemmtilegu einu sinni í mánuði.

Mynd: Freepik.

Vogin 23. september – 22. október

Kæra vog, þú sýnir í eðli þínu yfirleitt jafnaðargeð en það er allt í lagi að leyfa sér að lyfta sér aðeins upp svona í desember. Það er á sama tíma mjög góður eiginleiki að geta haldið ró sinni í jólastressinu og bara leyfa sér að njóta sín í núinu. Jólatónleikar eru eitthvað sem þú ættir að skoða, hvort sem þig langar að þamba heila rútu af bjór á Baggalút eða njóta með lokuð augun í sunnlenskri kirkju mun það fylla hjartað af jólakærleik.

Framtíðin er björt fyrir þig þrátt fyrir hin ýmsu mis-skemmtilegu heimsmál og þú ættir að reyna að njóta þess sem landið okkar hefur uppá að bjóða eins og útiveru (þegar það er ekki snarvitlaust veður eða mannskaða hálka), það er gott að jarðtengja sig og njóta árstíðarinnar sem fer í hönd.

Mynd: Freepik.

Sporðdrekinn 23. október – 22. nóvember

Kæri sporðdreki, velllukkaðar leiðindastundir með þínum nánustu eru það besta sem þú veist, þér þykir svo gott að hafa fólkið þitt hjá þér, þó þau séu ekkert alltaf skemmtileg. Þú mátt búast við nokkrum breytingum eftir hátíðirnar.

Hvort sem það eru nýir nágrannar með stanslausan hávaða, óvænt ferðalög eða jafnvel nýr fjölskyldumeðlimur, mun það alls ekki eyðileggja árið heldur gefa þér nýja innsýn og reynslu sem mun nýtast seinna á lífsleiðinni. Endilega njóttu sem allra best þess tíma sem þér gefst til að gefa og upplifa með vinum og fjölskyldu þrátt fyrir að allar jólakúlurnar séu kannski ekki á réttum stað.

Mynd: Freepik.

Bogmaðurinn 23. nóvember – 22. desember

Kæri bogmaður, þú ert ekta jólabarn sem lifir og þrífst á jóla-hasarnum. Nú þegar aðventan er meira en hálfnuð ertu langt kominn með að byrja að skreyta hjá nágrannanum sem virðist ekki hafa neinn tíma til að gera það sjálfur. Ekki láta þetta fara í taugarnar á þér, nágranna greyið hlýtur að fara að komast í jólafrí og þú getur einbeitt þér að því að fullkomna jólagjafirnar sem eru nálægt því að fylla heimilið.

Mundu samt, kæri bogmaður, að njóta þess að vera í núinu, anda að þér jólailmnum (hvort sem hún kemur af hýasintu, jólatré, matvælum eða kerti), loka augunum og þakka fyrir allt það góða sem þú átt.

Mynd: Freepik.

Steingeitin 23. desember – 20. janúar

Kæra Steingeit, þú þraukar það sem eftir er af þessum mánuði. Ekki gleyma að hann endar á nýju ári, fullu af nýjum ævintýrum og markmiðasetningum, sem þú elskar. Desember getur reynst þér erfiður því hann er uppfullur af viðburðum sem þú hefur ekki nema takmarkaða stjórn á og það sem þú skipulagðir fyrir mörgum mánuðum síðan gæti runnið út í sandinn.

Þolinmæði þín kemur að góðum notum hér, því þú kannt að anda að þér blómailm með lokuð augu, og blása á kertið þegar allt þyrmir yfir þig, þú þarft bara að muna eftir þessari einföldu aðferð í amstri dagsins og muna að þetta tekur allt enda og yfirleitt er aðfangadagskvöld bara frekar næs, þegar stressið er búið.

Þessi stjörnuspá er ekki byggð á vísindalegum rannsóknum, heldur tilfinningu spákonu á stöðu merkjanna í desember. Engu merkjanna ber skylda til að fylgja ráðum spárinnar ern eru eindregið hvött til þess.

Nýjar fréttir