11.7 C
Selfoss

„Þriðja starfið sem ég hef unnið á ævinni“

Vinsælast

„Ég varð verslunarstjóri hér í Kjörbúðinni þegar hún var opnuð 9. júní 2021 og þetta hefur gengið ljómandi vel frá fyrsta degi,“ segir Jón Jónsson, 49 ára verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Hellu en hún er í verslunarmiðstöðinni Miðjunni sem blasir við þegar ekið er inn í bæinn.Kjörbúðin tók við af versluninni Kjarval, sem Festi átti áður, en Jón var þar vaktstjóri.

Jón er heimamaður á Hellu. „Mamma er úr Landeyjum og pabbi frá Árbæ í Holtunum, hér rétt hinum megin við ána. Ég bjó fyrstu þrjú árin í Landeyjum en þá fluttum við á Hellu og hér hef ég alið manninn síðan.“

Um aldur og fyrri störf brosir hann og segir að hann sé ekki mikið fyrir að skipta um starfsvettvang því verslunarstarfið sé þriðja starfið sem hann hafi unnið á ævinni og að eitt ár sé í fimmtugsafmælið.

Vann í bakaríi á Hellu í hartnær 26 ár

„Ég vann í glerverksmiðjunni Samverki sem unglingur og eftir það vann ég í bakarínu hér á staðnum í hartnær 26 ár; fyrst sem sumarmaður en eftir fjórða sumarið hætti ég í skóla og byrjaði þar allan daginn við útkeyrslu. Eftir það lá leiðin inn fyrir og ég vann samfellt í átján ár sem bakari – eða þar til bakarínu var lokað. Núna er glæsileg bakarísbúð í miðju Miðjunnar, en hér er ekkert bakað lengur heldur koma kræsingarnar frá Almari bakara í Hveragerði á hverjum morgni.“

Hann segir að verslunarstarfið eigi vel við sig. „Þetta er mjög lifandi starf og mikið um að vera. Hin miklu samskipti við viðskiptavini, birgja og samstarfsmenn eru það mest gefandi við starfið. Það er góð tilfinning að geta veitt góða þjónustu og finna ánægju þeirra sem koma hingað í búðina.“

Reyni að stilla fram ferskri búð

En hvað leggur hann mesta áherslu á í búðinni? „Ég reyni fyrst og fremst að stilla fram ferskri, vel útlítandi og góðri búð með sem mestu vöruvali og áhugaverðum tilboðum.Aðalatriðið er að búðin líti vel út og það sé ánægjulegt að kaupa inn. Það slær mig alltaf jafn illa þegar ég kem inn í verslun þar sem lítið er til og allt einhvern veginn ekki í lagi. Það er ekki góð kaupmennska.“

Fjölmörg fyrirtæki í Miðjunni á Hellu

Kjörbúðin á Hellu er í Miðjunni og á besta stað í bænum. Fjölmörg fyrirtæki eru í verslunarmiðstöðinni. Fyrir utan Kjörbúðina eru þar vínbúð, heilsugæsla, bakarí Almars, apótek, skrifstofur sveitarfélagsins og verkalýðsfélagsins, verkfræðistofa, tannlæknastofa oghárgreiðslustofa.

Kjörbúðin á Hellu er á besta stað – í verslunarmiðstöðinni Miðjunni sem blasir við þegar ekið er inn í bæinn.

„Þetta er sannkölluð Miðja í bæjarfélaginu og margir staldra við og líta inn. Umferð um Suðurlandið, allt austur að Höfn, er mikil og langflestir af þeim erlendu ferðamönnum sem koma til landsins fara um Hellu á leið sinni austur; t.d. í Jökulsárlón.“

Útlendingar eru sólgnir í skyr

Jón segir að yfir sumarið hópist oft inn erlendir ferðamenn á leið upp í Landmannalaugar. „Það er mikið annríki hérna flesta morgna yfir sumarið þegar rúturnar stoppa hér og inn koma 50 til 60 manns í einu úr einni rútu. Þá er handagangur í öskjunni og við þurfum að hafa okkur alla við til að geta sinnt þeim.“

En hverju skyldu erlendu ferðamennirnir vera hrifnastir af? „Þeir eru sólgnir í skyr og mjólkurvörur, það fer ekki á milli mála. Þeir spyrja líka oft um einhvern þjóðlegan mat sem þeir verði að smakka og prófa. Ég hef bent þeim á tilbúna rétti eins og saltkjöt, kjötsúpu, bjúgu og pylsur. Þeir eru hrifnastir af pylsunum. Þegar þeir sjá hið mikla úrval af pylsum hjá okkur spyrja þeir gjarnan hvað sé íslenskast af öllum þessum pylsum sem eru í boði.

Jón bætir því við að útlendingar kaupi ekki mikið af grillkjöti en það sé öðru nær meðlandann. „Það hefur selst mikið af grillkjöti í sumar enda veðrið verið mjög gott – það taka allir grillarar vel við sér í sól og sumaryl.

Óvenjulegt – ekki í hestamennsku

Hella er þekkt fyrir hestamennsku, gæðinga og glæsileg mót á Gaddstaðaflötum. En er Jón í því sporti?

„Nei, það er ég ekki. Þrátt fyrir að ég hafi verið í sveit öll sumur sem krakki hefur hestamennska aldrei hrifið mig. Meira að segja í sveitinni í gamla daga var mér frekar illa við hesta. En þetta er vinsælt sport og setur svip á sveitarfélagiðsem er hið besta mál. Eðli málsins samkvæmt eru hestamenn oft á ferð í búðinni hjá mér.

Les og grúskar um tækni og vísindi

Um áhugamál sín segir Jón að þau snúi að tækni. „Þótt það hljómi ekki spennandi þá les ég talsvert af tæknigreinum í tímaritum og á netinu og grúska mikið á youtube um alls kyns tækni. Það kemur því ekki á óvart að tímaritið Lifandi vísindi er mitt uppáhaldsblað,“ segir Jón og brosir.

Nokkur stakkaskipti hafa orðið á Hellu undanfarinn áratug og bærinn vaxið og dafnað. „Það er mjög ánægjulegt hvað hér hefur verið mikil gróska. Hér var engin uppbygging í áratugi. Núna blómstrar bærinn með aukinni ferðaþjónustu. Ég hef stundum tekið sem dæmi að þegar ég byrjaði í skóla vorum við 32 krakkarnir í árganginum en þegar ég útskrifaðist úr tíunda bekk grunnskóla vorum við sautján. Það fækkaði sem sagt verulega í hópnum.“

Sjálfsafgreiðsla tekur ekki störf af fólki

Alls eru átján á launaskrá í Kjörbúðinni á Hellu en stöðugildin eru sex. Það er því talsvert um hlutastörf. „Það eru alltaf fjórir á vakt frá átta á morgnana til fjögur á daginn. Og alltaf tveir á kvöldvaktinni fram til átta en við höfum opið svolítið lengur en ýmsar aðrar Kjörbúðir. Hér er til dæmis oft mjög annasamur tími á milli sjö og átta á kvöldin þótt mesta traffíkin sé síðdegis á milli fjögur og fimm – sem og á morgnana á sumrin þegar rúturnar drífur að og erlendir ferðamenn flykkjast hér inn.“

Vel á minnst – hvernig höndlið þið það að fá 50 til 60 manns úr fullri rútu inn til ykkar? „Það gengur bara vel. Það er auðvitað áskorun. En við sinnum því vel og þá kemur sjálfsafgreiðslan sér vel. Við erum með þrjá slíka kassa og einn mannaðan kassa. Vissulega þarf oft einn að vera við sjálfsafgreiðsluna til að aðstoða en ég hef sagt að hún taki ekki störf af fólki, eins og margir halda fram. Starfsfólkið nýtist þá betur við að sinna öðru á meðan, eins og fylla í hillurnar og halda búðinni ferskri og í fínu formi.

Jón á von á ferðamönnum fram eftir hausti. „Ferðatímabil útlendinga er alltaf að lengjast á haustin – og raunar má segja að þeir séu á ferð allt árið þótt auðvitað sé mest um þá á sumrin.“

Glens og gaman á Töðugjöldum

Bæjarhátíðin á Hellu nefnist Töðugjöld en töðugjöld voru í gamla daga dálítill glaðningur sem heimilisfólki var gefinn þegar búið var að hirða töðuna af túninu. „Þessi bæjarhátíð er mjög vel heppnuð og jafnan haldin um miðjan ágúst. Þetta er hefðbundin hátíð með tónleikum, kvöldvöku, skemmtiatriðum og flugeldasýningu og það er ánægjulegt hvað hún hefur öðlast fastan sess í bæjarfélaginu,“ segir Jón Jónsson, verslunarstjóri Kjörbúðarinnar á Hellu.

Nýjar fréttir