8.9 C
Selfoss

Frjálsíþróttaráð fékk viðurkenningu fyrir viðburð ársins

Vinsælast

Uppskeruhátíð Frjálsíþróttasambands Íslands og samkoma í tilefni þess að 75 ár eru frá fyrstu landskeppni landsliðs Íslands í frjálsum íþróttum var haldin í Laugardalshöllinni 30. nóvember.

Á uppskeruhátíðinni hlaut Frjálsíþróttaráð HSK viðurkenningu fyrir viðburð ársins og tók Guðmunda Ólafsdóttir formaður ráðsins við viðurkenningunni.

Verðlaunin voru fyrir glæsilegt Meistaramót 11-14 ára sem haldið var á Selfossvelli í júní sl. Á mótið mætti fjöldi keppenda sem fékk tækifæri til að keppa við sína jafningja, í íþróttagrein sem þeir elska, við bestu aðstæður á landinu. Einnig var boðið uppá gistingu í Vallaskóla og skemmtidagskrá á kvöldin fyrir þá keppendur sem það kusu og var því fyrirkomulagi gríðarlega vel tekið.

Umsögn frá FRÍ um viðburð ársins var svohljóðandi: „Af fjölmörgum góðum frjálsíþróttaviðburðum sem haldnir hafa verið um land allt á liðnu ári þótti MÍ 11-14 ára á Selfossi standa uppúr. Framkvæmdin var með nýju fyrirkomulagi, sem vafðist ekki fyrir þrautreyndum og sterkum hópi sjálfboðaliða HSK/Selfoss, nema síður sé. Bryddað var upp á ýmsum nýjungum, sem urðu til þess að auka enn á gæði mótsins, ánægju og gleði þátttakenda. Aðbúnaður á mótinu og umgjörð öll var framkvæmdaraðilum til mikils sóma og spiluðu Lindex höllin og frjálsíþróttavöllurinn hér vel saman.“

Guðmunda sagði þetta um viðurkenninguna eftir uppskeruhátíðina: “Ekkert svona gerist af sjálfu sér. Til að framkvæma mótið sendu 12 félög samtals 68 sjálfboðaliða til starfa, sem unnu samtals 984 vinnustundir við mótið. Ég vil nota tækifærið til að þakka þeim kærlega fyrir þeirra framlag, sem er ómetanlegt. Frjálsar íþróttir eru afskaplega mannaflsfrekar þegar kemur að framkvæmd og án sjálfboðaliðanna yrðu engin mót. Ég vil þakka sérstaklega félögum mínum í framkvæmdanefnd mótsins fyrir þeirra frábæru vinnu og ekki síst starfsmannastjóranum sem stóð svo sannarlega fyrir sínu. Starfsmennirnir á Selfossvelli fá svo sérstakt hrós fyrir sína vinnu, enda völlurinn sjaldan litið betur út. Ég kemst heldur ekki hjá því að nefna styrktaraðila mótsins, þeirra framlag gerði allt auðveldara.”

Þess má geta að frjálsíþróttaráði HSK hefur verið falið að halda MÍ 15 – 22 ára í júní á næsta ári.

Nýjar fréttir