11.7 C
Selfoss

Næstu skref að hefjast í uppbyggingu miðbæjar Selfoss

Vinsælast

Byggingarfulltrúinn í Árborg hefur samþykkt byggingaráform Sigtún Þróunarfélags á lóðinni við Eyraveg 3-5 við hlið Mjólkurbúsins. Þar munu rísa tvö ný hús og bílastæðahús og segir Vignir Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sigtúns, að framkvæmdir hefjist á allra næstu dögum. „Nú er verið að slá upp girðingu og ég á von á að jarðvinna hefjist öðru hvoru megin við helgina. Byggingarframkvæmdir við bílastæðahúsið munu taka um 6 mánuði en húsin sjálf verða um 18 mánuði í byggingu,“ segir Vignir.

Á meðan framkvæmdir við bílastæðahúsið standa yfir munu bílastæði miðbæjarins færast á stórt malarplan sem útbúið hefur verið milli Kirkjuvegar og Sigtúnsgarðs og er aðgengilegt frá Kirkjuvegi. Þar er pláss fyrir allt að 100 bíla. „Við bindum svo vonir við að bílastæðahúsið verði komið í notkun næsta sumar. Það verður mikil breyting til hins betra fyrir gesti miðbæjarins,“ segir Vignir.

Teikning landslagsarkitekta sem sýnir bílastæðahús í samhengið við Brúartorg og hús við Eyraveg.

Húsin sem munu rísa á Eyravegi 3-5 eru hið svonefnda Amtmannshús, sem stóð við í Reykjavík á árunum 1879-1972, og Hótel Akureyri sem stóð við Aðalstræti á Akureyri 1902-1955. Örlög þessara húsa á sínum tíma voru þó af ólíkum toga. Hótel Akureyri varð eldi að bráð en Amtmannshúsið var rifið. Í endurbyggðum húsunum á Selfossi verða skrifstofurými til útleigu á efri hæðum en jarðhæðin verður nýtt sem þjónustu- eða verslunarhúsnæði.

Sem fyrr eru það Jáverk og Borgarverk sem sjá um framkvæmdir og jarðvinnu, og því fólk og fyrirtæki úr héraði sem sjá um reisa húsin. „Við leggjum áherslu á þessi framkvæmdakostnaður haldist eftir fremsta megni innan Árborgarhagkerfisins, ef svo má segja, og að þeir sem koma að þessari uppbyggingu – smiðir, rafvirkjar, múrarar, píparar og svo framvegis – séu að uppistöðu heimamenn. Það skiptir máli,“ segir Vignir.

Bygging þessara húsa við Eyraveginn markar upphafið af öðrum áfanga miðbæjarins og segir Vignir að framkvæmdir á fleiri svæðum innan miðbæjarins muni hefjast fyrr en síðar. „Hönnun á svæðinu er ennþá í fullum gangi og búið er að skipta svæðinu í 4-5 byggingarreiti. Við áformum að hefja framkvæmdir á þeim eftir því sem hönnun þeirra vindur fram. Næsti reitur er hinn svokallaði Pakkhúsreitur og vonandi getum við klárað jarðvinnu þar með vorinu,“ segir Vignir.

Nánar um nýju húsin

Amtmannshúsið stóð við Ingólfsstræti 9 í miðbæ Reykjavíkur en gatan Amtmannsstígur er kennd við húsið, á þeim slóðum sem aðalbygging Menntaskólans í Reykjavík stendur í dag. Það var reist upphaflega af amtmönnunum Magnúsi Stephensen og Eggerti Theodór Jónassen. Húsið var rifið árið 1972 í samræmi við skipulag sem þá var í gildi og gerði ráð fyrir að timburhús skyldu víkja fyrir stærri steinsteyptum húsum og hraðbraut. Ekkert varð þó úr þeim áformum.

Húsið sem kennt er við Hótel Akureyri var byggt á upphafsárum 19. aldar í stað samnefnds húss sem hafði skömmu áður orðið eldi að bráð. Var það fljótt mál manna að Hótel Akureyri væri þá eitt allra glæsilegasta gistiheimili landsins og ein helsta prýði Akureyrarbæjar. Síðar hallaði undir fæti í hótelrekstrinum og fór svo að nýir fjárfestar ákváðu 1920 að breyta húsinu í íbúðarhús. Hinn 17. nóvember 1955 kviknaði eldur fyrir slysni inni í einu herberginu og var ekki að sökum að spyrja, mikill eldsmatur reyndist í plönkunum í hólfi og gólfi hússins svo það brann hratt til grunna, jafnvel þótt öllu tiltæku slökkviliði hefði verið teflt fram.

Nýjar fréttir