-8.9 C
Selfoss

Alvöru „trúnó“ tvisvar í viku

Vinsælast

Nóvember hefur verið viðburðaríkur mánuður í starfsemi okkar í Krabbameinsfélagi Árnessýslu, líkt og aðrir mánuðir ársins.

Félagsmenn hafa verið duglegir að mæta í opið hús þrisvar sinnum í viku, hittast til að spjalla, drekka kaffi og gæða sér á ýmsum veitingum sem sjálfboðaliðar okkar reiða fram á vaktinni. Endurhæfingarhópurinn mætir reglulega í hreyfingu tvisvar sinnum í viku, hittist í sálgæslu þar sem alvöru „trúnó“ fer fram og lærir einnig ýmsa nýja iðju í hverjum mánuði. Hópnum er margt til listanna lagt og fengu þau nýlega kennslu í að mála á steina og hekla snjókorn sem eflaust eiga eftir að prýða heimili þeirra um jólin. Karlahópurinn fékk matreiðslumanninn Ola Olsen í heimsókn sem kenndi þeim að grafa bleikju og lax, handavinnuhópurinn Upprekjurnar voru með ýmislegt á prjónunum og kvennaspjallhópurinn okkar var endurvakin eftir tæplega þriggja ára hlé. Félagið er ávallt í góðu samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands og tók þátt í fjarnámskeiði á þeirra vegum, sem fjallaði um Óttan við að endurgreinast. Það er félaginu ómetanlegt að hafa aðgengi að því fagfólki og fræðslu sem býr innan Krabbameinsfélags Íslands og Ráðgjafaþjónustunni í Skógarhlíðinni.

Framundan er jólamánuðurinn sem hefur bæði hlýjan sjarma og gleði í för með sér en á sama tíma getur hann reynst mörgum erfiður af ýmsum ástæðum. Við munum leggja áherslu samverur í desember þar sem við finnum styrkinn í að tilheyra samfélagi sem byggir á skilningi, trausti og umhyggju. Laugardaginn 2.desember verður fjölskyldusamvera á Eyraveginum þar sem við hittumst og skreytum piparkökur og piparkökuhús, gæðum okkur á heitu súkkulaði og eflaust stelumst í að smakka nokkrar vel skreyttar piparkökur. Að kvöldi þess 2.desember verður jólaveisla í Tryggvaskála þar sem við gæðum okkur á góðum mat, spjöllum og eigum saman notalega stund.

Skapast hefur sú hefð að bjóða uppá sálgæslu í desember mánuði. Sálgæsla getur verið mikilvæg fyrir okkur þegar við tökumst á við veikindi, sorg, söknuð eða breytingar í lífinu sem hafa áhrif á okkar daglega líf. Sálgæslan er öllum opin og hvetjum við alla til að nýta sér hana.

Það er alltaf notalegt að koma á Eyraveginn, í fallegu og hlýlegu félagsaðstöðuna okkar sem við erum svo þakklát fyrir að hafa. Dagskrá desember mánaðar má finna á facebook síðu félagsins og í facebook hópnum Brosið þar sem reglulega koma inn fréttir af starfseminni.

Minnum á símann okkar 482 1022 og netfangið okkar, arnessysla@krabb.is

Óskum ykkur notalegra stunda í desember, munið að huga að ykkur sjálfum og þiggja þann stuðning og styrk sem þið þurfið á að halda.

Fyrir hönd Krabbameinsfélags Árnessýslu
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður

Nýjar fréttir