5 C
Selfoss

Við öll gegn ofbeldi

Vinsælast

Alþjóðlegt átak Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi, sem kallast 16 daga átakið, hefst á morgun, 25. nóvember og því lýkur 10. desember. Átakið markast af alþjóðadegi S.þ. gegn kynbundnu ofbeldi annars vegar og hins vegar af mannréttindadegi S.þ. Um allan heim, og þá líka á Íslandi, taka andstæðingar ofbeldis höndum saman og standa fyrir margvíslegum viðburðum til að vekja athygli á því kynbunda ofbeldi sem viðgengst svo til í öllum samfélögum. Soroptimistaklúbbur Suðurlands tekur myndarlega þátt í átakinu eins og endranær og hvetur Sunnlendinga til að leggja því lið. Litur átaksins er appelsínugulur og við munum nota þennan roðagyllta lit eins mikið og við getum meðan á því stendur.

Upplýstar byggingar gegn ofbeldi

Sú hefð hefur skapast að lýsa upp byggingar með appelsínugulum lit meðan á átakinu stendur. Þannig verða öll sendiráð Íslands erlendis lýst upp og margar opinberar byggingar og kirkjur svo fátt eitt sé nefnt. Að undanförnu hafa Soroptimistar á Suðurlandi haft samband við fjöldamarga aðila á Suðurlandi og hvatt þá til að lýsa upp byggingar sínar þessa daga. Appelsínugular filmur fást í Ensó í Reykjavík, en einnig má hafa samband við Soroptimistaklúbb Suðurlands sem útvegar þær.

Fánar gegn ofbeldi

Sveitarfélög víða um Suðurland munu flagga appelsínugulum fánum til að sýna baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi stuðning. Vanti sveitarfélög fána má hafa samband við Soroptimistaklúbbinn – nokkrir fánar eru til á lager. En stærsta framlag þeirra felst í því að standa að Sigurhæðum, sem er þjónustumiðstöð fyrir þolendur sem starfandi er á Selfossi undir forystu Soroptimistaklúbbs Suðurlands. Öll sveitarfélögin á Suðurlandi leggja Sigurhæðum til fjármagn árlega í hlutfalli við íbúafjölda. Þá hafa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga haft Sigurhæðir sem áhersluverkefni í Sóknaráætlun Suðurlands um tveggja ára skeið og því hefur fylgt myndarlegur styrkur.

Sigurhæðir gegn ofbeldi

Hið sunnlenska samfélag stendur sameinað að því að starfrækja Sigurhæðir, þjónustumiðstöð fyrir þolendur kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis þar sem þolendur fá margvíslegan stuðning, ráðgjöf og meðferð við þeim áföllum sem eiga rætur í kynbundu ofbeldi. Sigurhæðir hafa nú verið starfandi í rúm tvö og hálft ár og á þeim tíma hafa hátt á þriðja hundrað sunnlenskar konur sótt þangað styrk og stuðning við að vinna úr afleiðingum ofbeldisins. Öll þjónusta er endurgjaldslaus. Auk allra sveitarfélaganna á Suðurlandi og Soroptimistaklúbbsins stendur Heilbrigðisstofnun Suðurlands, lögreglan á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, sýslumennirnir á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, Kvennaráðgjöfin og Mannréttindaskrifstofa Íslands að Sigurhæðum. Þetta er víðtækasta og virkasta samstarfsnet um þjónustu við þolendur sem um getur á Íslandi og skipar þetta mikilvæga samstarf Sunnlendingum í fremstu röð í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi.

Ef þú þarft á þjónustu Sigurhæða að halda, eða vilt frekari upplýsingar, er bent á netfang Sigurhæða, sigur@sigurhaedir.is, heimasíðuna sigurhaedir.is eða síma 834 5566 þar sem panta má tíma.

Gengið gegn ofbeldi

Laugardaginn 25. nóvember nk. munu Soroptimistar standa fyrir göngu gegn ofbeldi og verður safnast saman kl. 11 í Sigurhæðum að Heiðmörk 1a Selfossi og gengið inn í nýja miðbæinn. Öll eru velkomin að koma í Sigurhæðir og sameinast Soroptimstasystrunum í þessari göngu. Ætla þær að klæðast appelsínugulu og ganga undir appelsínugulum fánum.

Blóm gegn ofbeldi

Að göngunni lokinni hefst sala Soroptimistasystranna á appelsínugulum blómvöndum fyrir framan Mjólkurbúið. Blómasalan er til styrktar Sigurhæðum sérstaklega. Þetta verður í þriðja sinn sem Soroptimistasysturnar standa fyrir blómasölu á þessum degi og hefur ágóðinn verið Sigurhæðum ómetanlegur stuðningur. Hver vöndur kostar 3.500 kr.

Bakkelsi gegn ofbeldi

GK bakarí við Austurveginn á Selfossi lætur ekki sitt eftir liggja og ætlar nú þriðja árið í röð að bjóða bakkelsi sem skreytt er appelsínugulu. Allur ágóði af sölunni rennur til Sigurhæða. Með þessu vill starfsfólk GK bakarís sýna samfélagslega ábyrgð, standa með þolendum kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis og styrkja meðferðarstarf Sigurhæða.

Ofbeldi kostar – sýnum samstöðu

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 35% kvenna séu þolendur kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis og að samfélagslegur kostnaður af því nemi 2% af þjóðarframleiðslu heimsins. Í íslensku samhengi er kostnaðurinn milljarðar á milljarða ofan. Þetta er risavaxin tala sem endurspeglar kostnað fyrir heilbrigðiskerfið, lögreglu og réttarvörslukerfið, félagslega kerfið og  vinnumarkaðinn í formi veikindadaga og vanlíðunar sem bitnar á framleiðni. Við bætist beinn og óbeinn kostnaður fyrir þolendur sem iðulega ná ekki að nýta hæfileika sína og tækifæri í lífinu til fulls og búa við versnandi líkamlega og andlega heilsu vegna þeirrar ógnarstjórnar sem felst í ofbeldinu. Afleiðingar fyrir börn og fjölskyldur eru alvarlegar og sýna að áhrif ofbeldisins geta varað kynslóð eftir kynslóð. Þessi tala sýnir að kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi er einn útbreiddasti og dýrasti lýðheilsuvandi mannkyns sem um getur. Öll barátta og viðleitni til að vinna bug á ofbeldinu er því samfélagslega ábatasöm auk þess sem þolendur fá aðstoð við að endurheimta sjálfstraust, valdeflast og ná bata frá ömurlegum afleiðingum ofbeldisins.

Sýnum samstöðu með þolendum kynbundins ofbeldis og heimilisofbeldis!

Tökum þátt í 16 daga átaki gegn ofbeldi!

F.h. Soroptimistaklúbbs Suðurlands,
Hildur Jónsdóttir, verkefnisstjóri Sigurhæða

Nýjar fréttir