11.1 C
Selfoss

Samgönguáætlun SASS 2023-2033

Vinsælast

Í vor samþykkti stjórn SASS að ráðast þyrfti í það á nýjan leik að uppfæra samgönguáætlun SASS. Fyrsta samgönguáætlunin var samþykkt á ársþingi SASS í október 2017. Ári síðar var ákveðið að uppfæra áætlunina þar sem hún þarfnaðist endurskoðunar, og nú vorið 2023 samþykkti stjórn SASS að fara í þriðju uppfærsluna sem kann að vera til marks um að margt hafi gerst í samgöngumálum á undanförnum árum. Samgöngunefnd var í kjölfarið skipuð af stjórn SASS nú í ágúst. Stjórnin lagði til að formaður nefndarinnar yrði Njáll Ragnarsson frá Vestmannaeyjum. Ingvi Már Guðnason frá SASS var starfsmaður nefndarinnar. Ný samgönguáætlun var í kjölfarið samþykkt á ársþinginu sem fram fór í lok október sl.

Í þessari ný samþykktu samgönguáætlun eru tekin saman þau verkefni sem að sveitarfélögin á Suðurlandi leggja helst áherslu á að verði unnin í samgöngumálum á árunum 2023-2033. Tilgangurinn með henni er að marka stefnu fyrir Suðurland í samgöngumálum, gera grein fyrir helstu áætlunum og setja fram lista yfir það sem nefndin telur helstu forgangsverkefni fram undan. Þær samgöngur sem fjallað eru um í áætluninni ná yfir vegamál, hafnir, almenningssamgöngur og flugvelli á Suðurlandi.

Nefndin taldi nú sem áður mikilvægt að ná fram forgangsverkefnum. Í þeirri vinnu lagði nefndarfólk mat á svör sveitarfélaganna við spurningum nefndarinnar auk þess að taka til greina samræður við hagsmunaaðila og viðbragðsaðila. Nefndin fékk gesti á fundi sína sem að komu á framfæri sínum sjónarmiðum sem gögnuðust nefndinni. Gestir nefndarinnar voru starfsmenn Vegagerðarinnar, lögreglunnar og sjúkraflutninga á Suðurlandi. Auk þess kallaði nefndin eftir umsögn frá Ungmennaráði Suðurlands.

Forgangsatriði sem að nefndin lagði áherslu á eru ellefu talsins og eru þau eftirfarandi:

 • Áfram þarf að forgangsraða vegaframkvæmdum á Suðurlandi í þágu öryggis vegfarenda. Mikill umferðarþungi er í umdæminu, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna, bæði á þjóðvegi 1 sem og í uppsveitum Árnessýslu.
 • Víða þarf að breikka vegi og laga vegaxlir. Á þetta við um þjóðveg 1 frá Markarfljóti austur í Skaftafellssýslur en einnig marga stofn vegi í uppsveitum. Gera þarf rifflur í vegmiðjur og koma fyrir vegriðum fyrir þar sem brett er niður af vegum.
 • Einbreiðar brýr í Suðurkjördæmi á þjóðvegi 1 eru 17 talsins fagnaðarefni er að í samgönguáætlun er áætlað að þær hverfi allar nema ein sem er yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Nefndin hvetur til þess að ráðist verði í tvöföldun brúarinnar hið fyrsta samhliða tilfærslu vegarins vegna landrofs.
 • Setja þarf útskot, afreinar og aðreinar á hættulega staði þar sem umferðarþungi og hröð umferð mæta heimreiðum og tengivegum. Þá þarf að huga að hjólreiðafólki og gangandi umferð.
 • Mikilvægt er að ráðast í heildarendurskoðun á vetrarþjónustu og tryggja að þá daga sem vetrarfærð er sé snjór hreinsaður og vegir og gangstígar hálkuvarðir.
 • Efla þarf löggæslu og viðbragð sjúkraflutninga. Sýnileg löggæsla og öflugt umferðareftirlit heldur niðri umferðarhraða og eykur öryggi vegfarenda. Þá er mikilvægt að stytta viðbragðstíma lögreglu og sjúkraflutninga þar sem hann er mestur. Að því marki ber að fullkanna möguleikann á sérhæfðri sjúkraþyrlu á Suðurlandi.
 • Stórar og kostnaðarsamar nýframkvæmdir er hægt að fjármagna með hóflegum veggjöldum að hluta eða öllu leyti í samstarfi ríkis og einkaaðila. Útfæra þarf aðkomu ríkisins að slíkum framkvæmdum, hvort sem þær eru fullu fjármagnaðar með veggjöldum eða að hluta úr ríkissjóði.
 • Mikilvægt er að styrkja uppbyggingu ferðamannavega – þeir sjóðir sem styrka slíka uppbyggingu þarf að efla þannig að raunverulegt fjármagn fáist til framkvæmda. Þá er mikilvægt að aukið fjármagn fáist til uppbyggingar og viðhalds stofn- og tengivega þannig að lagningu bundins slitlags á þá vegi verði hraðað.
 • Tryggja þarf áfram nægilegt fjármagn til dýpkunar í og við hafnir á Suðurlandi og tryggja að dýpkun geti farið fram allan ársins hring. Þá þarf sömuleiðis að vinna að endurbótum á höfnunum g eftir atvikum stækkun þeirra, enda eru hafnirnar gríðarlega mikilvægar svæðinu og þjóðinni allri.
 • Sunnlendingar eiga að vera brautryðjendur í grænum samgöngum á Íslandi líkt og gert var með rafvæðingu Herjólfs. Gera þarf stórátak í að fjölga hleðslustöðvum fyrir rafbíla um allt Suðurland og því þurfa sveitarfélög að vera tilbúin með skipulag fyrir slíkt. Þá þarf að vinna áfram í landtengingu hafna.
 • Fyrirbyggja þarf landrof sem ógnar mjög þéttbýlinu í Vík sem og við þjóðveg 1 á Breiðamerkursandi.
 • Mikilvægt er að landsbyggðin hafi greiðan aðgang að skilvirkum, öflugum og hagkvæmum almenningssamgöngum sem tryggja aðgengi að þjónustu í höfuðborginni. Þá er mikilvægt að flugsamgöngur verði tryggðar til framtíðar bæði til Hornafjarðar og Vestmannaeyja.

Nýjar fréttir