11.1 C
Selfoss

Kvikmynd Marteins um líf Selfyssinga í 60 ár

Vinsælast

Það var dýrleg stund á Sviðinu í hinum nýja miðbæ Selfoss á fimmtudagskvöldið var, Marteinn Sigurgeirsson sonur þess eftir minnilega manns Geira unglings var kominn heim með Kvikmynd um líf og æskufjör Selfyssinga í sextíu ár.

Marteinn hafði sem fermingardrengur farið í Kaupfélagið að kaupa myndavél en í staðinn keypti hann kvikmyndavél. Á öllum stórum hátíðum hér höfum við séð hann með kvikmyndavélina sína að filma atburði lýðandi stundar. Nú var komið að uppskerustund og þeir bræður Marteinn og Gunnar hafa báðir mikla ástríðu fyrir sögu samfélagsins og gildi menningarinnar. Á Sviðinu var hvert sæti skipað og spenna var í lofti og þeir bræður brugðust ekki samfélagi sínu.

Marteinn sýndi marga kafla úr mannlífi staðarins og æskan hans fékk ómældan skerf unga fólkið hér fætt fyrir og eftir 1950. Í fótbolta og íþróttum og ferðalögum í Þórsmörk til Húsavíkur og Færeyja með gleði sína og öll þessi glæstu æskuandlit eru nú orðin fullorðin og mörg skörð höggvin í hópinn. Bítlahárið var komið og glæstur klæðaburðurinn vakti athygli þeirra yngri í salnum, söngur og gleði. Þarna geta börn og unglingar séð pabba og mömmu á hinum glöðu árum æskunnar. Við fylgjumst með þegar karlmenn bæjarins grafa fyrir kirkjunni okkar fyrir að verða 70 árum með handafli, hvar var grafan? Hestamannafélagið fær glæstan þátt og viðtöl við marga gömlu snillingana. Sama er að segja um Leigubílamenninguna svo ekki sé talað um Selfossbíó sem innfæddir töluðu um með lotningu sem hið eina menningarhús með bíómyndum og frægum dansleikjum og innréttingar gamla Leós, Ljóns Norðursins. Nú verður Selfossbíó endurreist í hinum nýja miðbæ þannig að gamla fólkið verður ungt á ný og stelpurnar túbera hárið og fara á ball.

Í kvikmyndinni er mikið sagt frá Landsmótum Ungmennafélags Íslands og þá sérstaklega sem Héraðssambandið Skarphéðinn hélt hér sunnanlands. Svo sjáumvið hina frægu sauðfjárrekstra í gegnum bæinn, íhaldslömbin halda í Höfn ef framsóknarlömbin út yfir brú í SS, og krakkar bæjarins hjálpa rekstrarmönnum. Þeir skipta mörg hundruð selfyssingarnir og sunnlendingarnir sem koma fyrir í kvikmyndinni.

Marteinn Sigurgeirsson hafur skráð sögu bæjar síns og mannlífs eftirminnilega í 60 ár. Allir verða að sjá þessa mynd oft var hlegið og klappað og þeir bræður gáfu ekkert eftir í sagnagleði sinni. Þessa mynd verða allir að sjá og upplifa hið glæsta samfélag sem hér reis eftir Flóaáveituna.

                                    Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir