-0.6 C
Selfoss

Árekstur, bílvelta og slysaskot

Vinsælast

Næg verkefni hafa verið hjá lögreglunni á Suðurlandi undanfarna daga. Nokkrir voru teknir fyrir of hraðan akstur um síðustu helgi og þar á meðal erlendur ferðamaður sem ók um Suðurstrandarveg, austan við Hlíðarvatn. Sá ók á yfir 150 km hraða. Hann gekkst við broti sínu og greiddi háa sekt og var sviptur öruréttindum.

Harður árekstur varð á Suðurlandsvegi á við afleggjarann inn að Hótel Rangá á laugardag, þegar bifreið var ekið aftan á aðra bifreið. Bifreiðarnar voru talsvert mikið skemmdar og óökuhæfar. Alls voru 8 manns í þessum árekstri en sem betur fer er talið að meiðsli þeirra séu minniháttar. Sjúkraflutningamenn frá Heilbrigðisstofnum Suðurlands óku fram á áreksturinn og voru með þeim fyrstu á vettvang. Farþegarnir 6 og ökumenn bifreiðanna voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til frekari aðhlynningar.

Á laugardag valt bíll á Biskupstungnabraut, rétt sunnan við Reykholt. Einn var í bílnum og var sá einnig fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands til frekari skoðunar. Hann er talinn með minniháttar meiðsli.

Þá varð það óhapp á laugardag að rjúpnaskytta sem var við göngu og veiðar í nánd við Ármannsfell datt og við fallið hljóp skot úr haglabyssunni sem endaði í aftanverðu læri hans. Þyrla Landhelgisgæslu Íslands sem var á leið til Reykjavíkur með sjúkling, kom við og flutti skyttuna á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.

Lögreglumenn frá embættinu sinna nú gæslu og lokunum á Suðurstrandarvegi vegna jarðhræringa við Grindavík. Vill lögregla vekja athygli þeirra sem aka um Suðurstrandarveg að hann er lokaður fyrir allri umferð til vesturs frá Krísuvíkurvegi nema umferð viðbragðaðila og þeirra sem hafa fengið sérstakt leyfi til að fara inn fyrir lokun. Búast má við að þessi lokun muni vara í nokkurn tíma.

Nýjar fréttir