1.7 C
Selfoss

Einfalt kjöt með meðlæti og sósu

Vinsælast

Páll Óli Ólason er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil þakka honum Magnúsi mínum fyrir áskorunina og tek henni fagnandi. Ég mæli jafnframt með að þið kíkið aftur yfir hans uppskrift enda lítur hún ekkert smá vel út. Það er greinilegt að hann hefur verið að stúdera þessa eldamennsku síðustu árin.

Sjálfur er ég tiltölulega einfaldur maður þegar kemur að eldamennsku. Geri hlutina sem minnst fancy en afraksturinn er oftar en ekki frábær þó ég segi sjálfur frá.

Það sem ég kynni fyrir ykkur í dag er einfalt kjöt með meðlæti og sósu að eigin vali.

Það sem þið þurfið fyrir eldamennskuna er eftirfarandi:

– Kjöt, helst með smá fitu. Auðveldara ef nautakjöt en má líka vera lambakjöt.
– Smjör eða avocado olíu.
– Salt og pipar eða annað krydd.
– Kjöthitamæli.

Takið kjötið og skerið, ef þarf, í ca 3 cm þykkar sneiðar. Kryddið með salti og pipar eða ykkar go-to kryddi. Sjálfur nota ég krydd sem heitir Montreal Steak Seasoning frá Grill Mates – getur varla klikkað með þetta nafn. Planið er að loka kjötinu og svo setja inn í ofn.

Hitið ofninn í 150°C. Hafið tilbúna grind og ég mæli með að hafa bakka með bökunarpappír undir.

Við viljum byrja á því að loka kjötinu. Takið pönnu og ég gef ykkur tvær leiðir:

Leið 1 er að setja olíu, þá t.d. avocado olíu á pönnu og hita, hafa hana vel heita og setja kjötið á. Loka með því að hita á hvorri hlið í ca 1 mínútu og kantana inn á milli.

Leið 2 er að setja smjör, þá alvöru smjör, á pönnuna en hita hana ekki alveg jafn mikið upp. Við viljum ekki brenna smjörið. Loka því á hvorri hlið á 1,5-2 mínútur og á meðan það er á hvorri hlið getið þið mokað smjörinu yfir hvora hliðina.

Ef það er fiturönd á kantinum nota ég stundum auka mínútu bara í að steikja þá rönd til að hafa hana aðeins stökka.

Eftir þetta fer kjötið inn í ofninn þar til kjarnhitinn er ca 52-56°C. Það tekur ofninn minn ca 7-8 mínútur en hann er ekkert sá besti þannig að kjöthitamælirinn gerir gæfumuninn hér.

Eftir að kjötið hefur náð þessum hita tökum við það úr ofninum og setjum á bakka og leyfum því að anda næstu 10 mínúturnar svo það nái aftur þeirri mýkt og raka sem við viljum fá í kjötið. Þið getið sett smá smjörklípu – má vera kryddsmjör – ofan á kjötið á meðan það er að jafna sig sem bráðnar þá yfir það. Stundum svindla ég líka smá og strái lakkríssalti yfir kjötið rétt eftir að það kemur út en það gefur aðeins öðruvísi bragð sem er skemmtilegt.

Á meðan kjötið er í ofninum og komið út úr honum í bið preppa ég meðlætið. Ef ég er með kartöflur sýð ég þær venjulega meðfram hinni eldamennskunni og set þær þá upp í potti við hliðina á pönnunni, salta, fæ suðuna upp og læt malla. Þær eru þá tilbúnar um svipað leyti og kjötið.

Hvað salat varðar þykir mér skemmtilegast að hrúga á diskinn; kál, gúrkur, tómatar, rauðlaukur, grænar ólívur, súrkál, feta ostur. Grænmetið skorið niður og því raðað á diskinn eftir hentisemi.

Þessu er svo snarað saman á disk; kjötið, kartöflur og grænmeti. Hvað sósuna varðar mæli ég með Bernaise, heimagerðri ef þið kunnið og hafi tímann en annars einhverja úr búðinni. Að lokum er gott rauðvínsglas meðfram þessu punkturinn yfir I-ið.

Svo þurfið þið bara að muna að borða hægt og njóta.

Ást og friður.

Ég skora á vin minn hann Þórarin Smára Thorlacius sem kom eins og stormsveipur á Selfoss fyrir nokkrum árum og er nú búinn að koma sér vel fyrir með frænku minni. Ég mæli eindregið með því að þið smakkið það sem hann hefur upp á að færa.

Nýjar fréttir