9.5 C
Selfoss

Þing UMFÍ á Geysi

Vinsælast

Sambandsþing Ungmennafélags Íslands var haldið á Hótel Geysi í Haukadal dagana 20.-21. október sl. Þingið var vel sótt en um 180 þingfulltrúar og gestir voru mættir við þingsetningu á föstudagskvöldinu.

Þinghaldið gekk vel undir styrkri stjórn þingforsetana Þóris Haraldssonar og Olgu Bjarnadóttur.

Stærsta málið á þinginu var tillaga sem felur í sér stofnun svæðaskrifstofa íþróttahéraða víða um land í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og stjórnvöld. Af lottógreiðslum til UMFÍ áttu 15% að fara til reksturs svæðaskrifstofanna og 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri. Skv. tillögunni á að koma á fót átta svæðastöðvum með sextán stöðugildum sem munu þjónusta íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti. Tillagan var einróma samþykkt og er næst á dagskrá að ná samningum við ríkið um að það leggi fram sambærilegan fjárstuðning til svæðisskrifstofunnar og UMFÍ og ÍSÍ muni leggja til svo hægt verði að tryggja reksturinn, en tillaga um sama málefni var samþykkt á þingi ÍSÍ fyrr á þessu ári.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var gestur við setningu sambandsþingsins og flutti þar ávarp. Hann sagði að búið væri að tryggja einn starfsmann á hvert starfssvæði, sem tillagan kveður á um, og fjármagn til að viðkomandi geti sinnt vinnu sinni

Tveir HSK félagar, báðir frá Umf. Selfoss, voru heiðraðir á þinginu. Guðmundur Kr. Jónsson, heiðursformaður HSK, var gerður að heiðursfélaga UMFÍ en heiðursfélagakross sem hann fékk af þessu tilefni er æðsta heiðursmerki samtakanna. Þá var Gissuri Jónssyni veitt Gullmerki UMFÍ. Hann hefur átt sæti í varastjórn UMFÍ undanfarin ár, en gaf ekki kost á sér til endurkjörs.

Aðalstjórn UMFÍ var öll endurkjörin á þinginu. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var einn í kjöri í embætti formanns og var því sjálfkjörinn.  Í aðalstjórn voru kosin þau Guðmundur G. Sigurbergsson, Ungmennasambandi Kjalarnesþings, Gunnar Þ. Gestsson, Ungmennasambandi Skagafjarðar, Gunnar Gunnarsson, Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands, Málfríður Sigurhansdóttir, Íþróttabandalagi Reykjavíkur, Ragnheiður Högnadóttir, Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu og Sigurður Óskar Jónsson, Ungmennasambandinu Úlfljóti. Þau Ásgeir Sveinsson, Héraðssambandinu Hrafna-Flóka, Guðmunda Ólafsdóttir, Íþróttabandalagi Akraness og Hallbera Eiríksdóttir, Ungmennasambandi Borgarfjarðar voru kosin í varastjórn.

HSK átti rétt á að senda 11 fulltrúa á þingið og sendi að sjálfsögðu fullmannað lið. Þingfulltrúar sambandsins voru þau Guðríður Aadnegard, Anný Ingimarsdóttir, Engilbert Olgeirsson, Gestur Einarsson, Gissur Jónsson, Guðjóna Björk Sigurðardóttir, Guðmundur Jónasson, Guðmundur Sigmarsson, Guðrún Tryggvadóttir, Helgi S. Haraldsson, Lárus Ingi Friðfinns Bjarnason og Sigríður Anna Guðjónsdóttir.

Nýjar fréttir