7.3 C
Selfoss

Mexíkóskir moðeldaðir rolluleggir

Vinsælast

Snorri Sigurðarson er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil byrja á því að þakka Styrmi Jarli kærlega fyrir áskorunina.

Ég ætla að bjóða ykkur kæru lesendur upp á alíslenska rollu með mexikósku yfirbragði.

Eldunartíminn er í lengra lagi en um þrjár klukkustundir. Svo ég mæli hiklaust með að taka eftirmiðdaginn frá, setja plötuna „Stuð Stuð Stuð“ með Ðe lónlí blú bojs á fóninn og hafa það náðugt á meðan rolluleggirnir moðeldast í ofninum.

Mexíkóskir moðeldaðir rolluleggir

Lambaskankar 2 stk
Nautasoð 1 L
Rauðvín ¼ flaska
Tómatpúrra 1 msk
Gulrætur 6 stk
Laukur 1 stk
Hvítlauksgeirar 2 stk
Chilli rauður 2 stk
Ferskt Timían ½ pakki
Kanilstöng 1 stk
Paprikuduft 1 msk
Reykt paprika 1 tsk
Kóríander 1 tsk
Cumin 2 tsk
Góð klípa salt og pipar

Stillið ofninn á 240°c. Nuddið leggina með smá olíu og saltið. Setjið í heitan ofninn í 10-15 mín þar til gullbrúnir.

Á meðan þeir brúnast í ofninum setur þú ofnpott á hellu og skellir nautasoði, rauðvíni, tómatpúrru og kryddum ofan í. Skerðu laukinn í helming og bættu í soðið ásamt restinni af hráefnum.

Þegar leggirnir eru brúnaðir lækkaðu ofninn niður í 150°c.

Settu leggina í soðið ásamt fitunni sem lak af þeim. Bættu við smá vatni ef þarf til að umlykja kjötið.

Settu lok á pottinn og í ofninn á 150°c í 3 klst.

Kartöflumús

2-4 Bökunarkartöflur
Smjör
Salt og pipar

Skrældu bökunarkartöflurnar og sjóddu heilar í söltuðu vatni þar til tilbúnar.

Helltu vatninu af, stappaðu með vænni klípu af smjöri.

Saltið og piprið af vild.

Gott að bæta smá grófu sinnepi út í.

Epla Salsa

½ grænt epli
½ pakki Steinselja
½ pakki Kóríander
1-2 Lime djús og börkur
1 rauður chilli
Skvetta af ólifuolíu
Salt og pipar

Skerið epli í smáa teninga. Saxið steinselju, kóríander og chilli mjög smátt. Blandið rest út í og smakkið til með salti og pipar.

Að eldunartíma liðnum taktu kjötið og gulrætur úr soðinu og sigtaðu restina af sósunni í ílát.

Gott að bera fram með fersku grænu salati beint úr haus.

Bon appétit!

Að lokum ætla ég að skora á góðan dreng og kumpána Magnús Helga Sigurðsson. Sá hefur einstaklega virðingarverðar skoðanir á matargerð. Magnús kýs eingöngu hráefni „beint úr haus“ eins og hann tekur svo oft til orða. Einnig vill hann helst fá beikonpylsuna sína hægeldaða við stofuhita í minnst 18 klst, þar til hún er orðin grá og krumpuð. Mikill matargagnrýnir þar á ferð og hikar ekki við að senda kvörtunarbréf á veitingastaði ef t.d. áleggin á samlokunni hitta ekki á tunguna í réttri röð.

Yfir til þín Magnús.

Nýjar fréttir