11.1 C
Selfoss

Ekið á barn á Selfossi

Vinsælast

Það óhapp varð á Selfossi sl. mánudag að 13 ára stúlka varð fyrir bíl á gatnamótum Rauðholts og Engjavegar.

„Hún hefur verið á ferðinni um 17:30 leytið, það var a.m.k. ekki orðið dimmt en kannski aðeins tekið að rökkva. Hún var að hjóla Engjaveginn í átt að hesthúsinu og stoppar við gatnamótin við Rauðholt en þar eru tveir bílarstopp. Mér skilst svo á henni að fremri bílinn hafi keyrt af stað, hún hikaði en ákvað að fara yfir og þá keyrir aftari bíllinn líka af stað og keyrir á hana. Hún dettur og ökumaðurinn kemur út og spyr hvort að það sé í lagi með hana sem hún segir að sé þannig ökumaðurinn fer,“ segir móðir stúlkunnar í samtali við Dagskrána.

Stúlkan segist hafa reynt að hjóla af stað en að felgan á hjólinu hafi verið svo beygluð að það hafi ekki reynst mögulegt. Hún hafi því teymt hjólið til ömmu sinnar og afa sem búa nálægt slysstaðnum og hringdi í foreldra sína. Þá segir hún að annar bíll hafi verið á svæðinu sem hafi tekið mynd af bílnum sem keyrði á hana og gæti látið hana hafa bílnúmerið ef þess þyrfti. „Henni greyinu brá eðlilega og grét bara heima hjá ömmu sinni og afa sem er mjög ólíkt henni, verandi komin á þennan aldur,“ bætir móðir stúlkunnar við.

Móðirin segist, eftir að hafa fullvissað sig um að allt væri í lagi með barnið, hafa orðið svolítið hugsi yfir því að ökumaðurinn hefði ekki tryggt það að barnið fengi samband við forráðamenn eftir svona slys og ákvað að senda inn vinsamlega ábendingu á Facebooksíðuna Íbúar á Selfossi, með það á bakvið eyrað að ökumaðurinn myndi mögulega gefa sig fram. „Sem hann og gerði. En hann lýsti því yfir að hann hafi sjálfur verið í sjokki eftir þetta, sem olli því að hann ók af vettvangi án þess að haft yrði samband við forráðamenn. Hann segist hafa áttað sig á því þegar hann keyrði í burtu og hafi komið aftur til baka til að athuga betur með hana en þá hafi hún verið farin. Ég ber engan kala til ökumannsins og átta mig á því að við erum öll mannleg og getum gert mistök. Hún var fljót að jafna sig og var komin í áheitasöfnun fyrir handboltann um kvöldið þannig þetta fór á besta mögulega veg, fyrir utan eina ónýta felgu,“ segir móðir stúlkunnar að lokum.

Nýjar fréttir