10 C
Selfoss

Seljavallalaug 100 ára

Vinsælast

Upphafið að sundkennslu og byggingu Seljavallalaugar var sennilega skelfilegt sjóslys rétt við Vestmannaeyjar. Þar fórust 27 manns með skipi, sem Sigurður Halldórsson í Skarðshlíð átti og sonur hans var skipstjóri á. Slysið varð 30. apríl 1901 og þar fórust 27 manns, mörg á aldrinum 14 til 20 ára. Urðu þá 27 börn undir Austur-Eyjafjöllum föðurlaus. Aðeins einn maður bjargaðist. Fjöldi manns horfði á þegar bátnum hvolfdi rétt upp við land. Enginn um borð kunni að synda.

Það var svo árið 1922 að Hjörleifur Jónsson í Skarðshlíð, sem var oddviti sveitarinnar, símaði til Björns J. Andréssonar frá Berjaneskoti, sem var í Vestmanneyjum og bað hann að fara á námskeið, sem norskur maður var með í Reykjavík. Þar var kennt sund og fleiri íþróttir. Björn var alveg hissa en lofaði að fara.

Þegar hann kom heim fór hann að athuga hvort ekki væri hægt að búa til laug inni í Laugárrgili. Hann skoðaði aðstæður og leist vel á svo hann fór til Ólafs Pálssonar á Þorvaldseyri. Ólafur sagði að þetta væri ekki mikið mál. Björn fór á alla bæi og safnaði liði og þeir hlóðu laug úr torfi og grjóti sem var ekki góð. Björn kenndi þeim svo sund sem hjálpuðu við hleðsluna.

Sundkennslan tók viku og það voru launin fyrir vinnuna við byggingu hlöðnu laugarinnar. Menn komu sér saman um að byggja steypta laug og hófust handa við fjársöfnun. Þeir óskuðu eftir styrk úr ríkissjóði, sem var hafnað. Sýslusjóður gat ekki hjálpað en þeir voru búnir að safna 740 kr. og sömdu við Hallgrím Benediktsson um að hann seldi þeim sement. Sementið kom svo vorið eftir til Vestmannaeyja. Það var flutt upp í sand eftir vertíðina, sem endaði 11. maí og hófst þá verkið. Laugin var tilbúin fyrir slátt.

Aðeins einn maður kunni að blanda steypuna, það var Björn Guðmundsson frá Gíslakoti. Þeir voru jafn gamlir og vinir, Björn J. Andrésson og Börn Guðmundsson. Björn Guðmundsson stjórnaði vinnunni og Björn J. Andrésson sá um að hafa alltaf nægan mannskap. Björn hóf námskeið í sundi og tóku 25 manns þátt í fyrsta námskeiðinu og gistu í tjöldum. Hann kenndi fjölda barna sund í lauginni, bæði úr Rangárvalla- og V – Skaftafellssýslu. Árið 1927 varð sundkennsla í lauginni hluti af skyldunámi. Laugin er 25 metrar á lengd og 10 metrar á breidd og var stærsta sundlaug landsins til ársins 1936.

Þegar höfundur var að alast upp undir Eyjafjöllum þá var laugin með einhvern ljóma og þótti nánast heilagur staður. Alla, sem komu í heimsókn, var farið með í Seljavallalaug. Alltaf var vel hugsað um hana. Það var svo árið 1995, sem ég fór inn í Laug sem kallað er og þá blasti við að hún var hálf tóm, stórt gat á henni og þar rann vatnið út. Haft var samband við formann Ungmennafélagsins og fékkst samþykki fyrir að lagfæra laugina. Hringt var í fjölda manns og kom 41. Þann 24. júní 1995 hófust lagfæringar, sem stóðu í 10 ár.

Allir hjálpast að. Ljósmynd: Aðsend.

Við, brottfluttir Eyfellingar, fórum alltaf fyrstu helgina í maí og vann fjöldi manns þar að og er listi með nöfnum þeirra varðveittur. Lilja Sigurgeirsdóttir í Drangshlíðardal sendi okkur ævinlega góðan mat upp í Laug. Á 75 ára afmæli Laugarinnar buðum við upp á stórveislu í Fossbúð og Stöð 2 sendi fréttamann til að gera góða mynd af því tilefni.

Síðan endurtókum við þetta á 80 ára afmælinu, buðum gestum og þá voru lauginni færðar gjafir og ræður haldnar. Árið 2011, ári eftir Eyjafjallagosið, var Laugin full af ösku og þá var ekki fagurt yfir að líta. Þá hafði Dofri Eysteinsson hjá Suðurverki samband og bauð okkur aðstoð og sendi sína stærstu vél og sinn besta mann, Sigurð Sigmundsson, sem mokaði 1180 tonnum upp úr Lauginni. Honum til aðstoðar komu menn frá Vík í Mýrdal með minni vél sem var hentug niðri í Lauginni og fjöldi sjálfboðaliða kom einnig.

Við Jón Á. Gissurarson fórum víða til að tala máli Seljavallalaugar. Steingrímur Hermannsson, þáverandi ráðherra, bauð okkur í morgunverð heima hjá sér til að hafa næði til að ræða málin. Rétt fyrir andlát Jóns fékk ég boð frá honum um að koma til hans, hann þyrfti að tala við mig. Þá bað hann mig að hafa samband við Sif Friðleifsdóttur, þáverandi umhverfisráðherra, og óska eftir friðlýsingu og það gerði ég.

Þann 6. júlí 2006 lýsti hún Seljavallalaug friðaða. Laugin og nánasta umhverfi hennar er í dag í umsjá Minjastofnunar Íslands. Ungmennafélagið Eyfellingur ásamt brottfluttum Eyfellingum og afkomendum Björns héldu í sumar upp á 100 ára afmæli Seljavallalaugar, sem byggð var 1923. Laugin er ein af elstu laugum landsins.

Afmælishátíðin var haldin þann 12. ágúst s.l. Fjölmenni, eða um 120 manns, mætti á hátíðina, sem hófst við Seljavallalaug. Það var ánægjulegt að sjá hversu margir afkomendur Björns mættu á hátíðina. Einnig mætti stór hópur fólks sem lærði sund í lauginni á sínum tíma. Frá Seljavallalaug var haldið í veglega grillveislu í félagsheimilinu Fossbúð, sem SS á Hvolsvelli styrkti myndarlega með því að gefa 50% afslátt af grillkjöti og kvenfélagið Fjallkonan sá um af miklum myndarskap.

Fyrir hönd hópsins Vinir Seljavallalaugar,

Páll A. Andrésson frá Berjanesi

Nýjar fréttir