6.7 C
Selfoss

Íhuga að kæra Ölfus fyrir óheimila landfyllingu

Vinsælast

Klukkan 7 síðasta sunnudagsmorgun hófu stórtækar vinnuvélar frá jarðvinnufyrirtækinu Suðurverk að moka grjóti út í sjóinn við Þorlákshöfn til að hefja landfyllingu fyrir stækkun hafnarsvæðisins í Þorlákshöfn. Dagskráin hafði samband við Atla Guðbrandsson, stjórnarmann í Brimbrettafélagi Íslands, BBFÍ vegna málsins.

„Það hefur staðið lengi til hjá Ölfusi að stækka höfnina, fyrir 2 árum var nýtt aðalskipulag Þorlákshafnarbæjar samþykkt. Þeir voru með mjög stór plön í bígerð, við tókum eftir því og höfðum samband við bæjaryfirvöld í Ölfusi, áttum mjög gott samtal við þau og þeir komu til móts við okkur. Við bentum þeim á að upphafleg plön þeirra myndu hafa mjög slæm áhrif á ölduna (aðalbrotið) og sendum þeim skýrslu frá Simon Brand Mortensen, öldu-sérfræðingi frá Ástralíu til staðfestingar. Í kjölfarið var unnin tillaga sem hentaði báðum aðilum, því það er líka jákvætt fyrir Þorlákshöfn að halda öldunni,“ segir Atli

Ljósmynd: Berglind Jóhannsdóttir.

Fjöldi ferðamanna eltir íslensku ölduna

„Þetta svæði er án nokkurs vafa besta og áreiðanlegasta brimbrettasvæði á suðvesturhorninu, ef ekki á öllu landinu. Þetta er heimsklassa alda og hún er vel þekkt meðal brimbrettaiðkenda, hefur verið mynduð í bak og fyrir. Aldan við Þorlákshöfn og á Ólafsfirði er meginástæðan fyrir því að Ísland er á radarnum hjá brimbrettafólki um allan heim. Til dæmis er einn stærsti „big wave“ brimbrettakappi heims á á landinu núna og fyrir viku síðan var annar þekktur „big-wave“ kappi hér. Það er mjög mikið af ferðamönnum sem koma hingað til þess eins að fara á brimbretti, en brimbrettaíþróttin er svipuð og aðrar íþróttir, á borð við skíði eða golf, þar sem fólk vill ferðast og prófa að upplifa íþróttina á nýjum stöðum.

Eyðileggja mörgþúsund ára náttúruperlu með einu pennastriki

Atli segir staðsetningu Íslands og landið sjálft mjög hentugt fyrir brimbrettaiðkun. „Við erum með strandlengju allan hringinn og fáum öldur að norðan og úr suðri með golfstraumnum upp til okkar, beint inn í Þorlákshöfn. Ríkjandi ölduátt er suðvestan áttin og hún fellur einkar vel inn í flóann í Þorlákshöfn. Eins og við í BBFÍ höfum ítrekað talað um, þá er aldan einstök náttúruperla og rifið eða botninn er búinn að skrapast í mörgþúsund ár og allt í einu ætla Elliði og hans fólk, með einu pennastriki að eyðileggja þetta fyrir komandi kynslóðum og við viljum koma í veg fyrir að það verði gert.“

Ljósmynd: Berglind Jóhannsdóttir.

Hafa fengið ráðgjöf ástralskra sérfræðinga

Samkvæmt Atla hefur BFFÍ átt í góðum samskiptum við bæjaryfirvöld í Ölfusi. „Við höfum lagst í mikla rannsóknarvinnu og skilað inn tillögum að breytingum á hafnarsvæðinu. Við fengum til liðs við okkur Ástrali sem eru strand- og hafnaverkfræðingar og hafa gríðarlega mikla reynslu á þessu sviði. Þessir sérfræðingar hafa haldið námskeið fyrir Vegagerðina og verkfræðinginn sem vinnur að hönnun hafnarinnar, Sigurð Ás, sem gerði meðal annars Landeyjarhöfn. Tillögurnar sem við höfum skilað inn ættu að varðveita ölduna og valda litlu tjóni á henni. Sömuleiðis taka þær tillit til athafnasvæðisins sem höfnin þarf. Við erum því að bíða eftir svari frá bæjaryfirvöldum og höldum í vonina um að þeir muni velja eina af tillögunum okkar, eins og átti sér stað fyrir tveimur árum. Þess vegna brá okkur svo svakalega að heyra að þeir hefðu byrjað klukkan 7 á sunnudagsmorgni án nokkurs fyrirvara.“

Ljósmynd: Berglind Jóhannsdóttir.

Stórkostlegar skemmdir á nokkrum klukkutímum

Ég veit ekki hvað planið er hjá þeim akkúrat núna, en við náðum að stöðva þá. En það sem þeim tókst að gera á nokkrum klukkutímum, er gríðarleg skemmd á þessu svæði. Á myndbandi sem var tekið í gær sést að aldan er nú þegar byrjuð að brotna á varnargarðinum, sem þýðir að ef það væri brimbrettamaður að „surfa“ þarna, þá myndi hann skella á grjótgarðinn ef hann hoppaði ekki af. Að skella á grjóti á 25-30 km hraða er ekkert grín. Þarna var fjara fyrir og þessvegna hefur verið mjög hentugt að komast uppúr en við þessa landfyllingu, fyrir utan slysahættuna sem augljóslega margfaldast, verður það heljarinnar bras að komast uppúr sjónum, með tilheyrandi vandræðum fyrir iðkendur.

Einhver er ekki að segja satt

„Við í Brimbrettafélaginu höfðum samband við Elliða í gærmorgun og hann segist koma af fjöllum og við skiljum hvorki upp né niður. Við höfðum í kjölfarið samband við Ásu Berglindi, bæjarfulltrúa í Ölfusi, og spurðum hvort hún hafi frétt af þessu. Hún staðfesti að þetta mál hefði ekki verið tekið fyrir, að það væri ekki komin heimild fyrir þessu og þetta væri þar af leiðandi ólöglegt. Ása fór beint og ræddi við verktakann sem var þarna á gröfunni, sem segir henni þá að honum hafi verið sagt að það mætti byrja að setja niður þarna efni, en svo yrði þetta samþykkt á fundi síðar í vikunni. Þetta er frekar nákvæmt svar sem þessi gröfumaður gefur þannig að augljóslega hefur Suðurverk, framkvæmdastjórinn eða sá aðili sem er ábyrgur fyrir þessu verki sagt viðkomandi að byrja. Þetta er mjög undarlegt og þó maður vilji ekki halda það að menn séu að ljúga þá er nokkuð augljóst að það er einhver sem er ekki að segja satt,“ segir Atli.

Ljósmynd: Berglind Jóhannsdóttir.

Héldu áfram að vinna eftir að mótmælendurnir sneru heim

„Þegar Ása var búin að tala við viðkomandi og við vorum mætt á svæðið, þá stöðva vélarnar vinnuna sína og fara að vinna í einhverju öðru. Svo þegar Ása fer og flestir mótmælendur eru farnir, þá byrja vinnuvélarnar aftur. Þetta er eitthvað sem er mjög loðið. Það sem gerist þá er að þeir byrja að vinna aftur og byrja að hlaða ofaná landfyllinguna. Þeir eru ekki að ýta grjótinu ofaní sjóinn en eru að undirbúa það, vinna sér í hag. Það er einn af okkar aðilum sem fór fyrr í dag og talaði við vinnumennina sem segja að þeir munu ekki hefja störf við landfyllinguna í dag og þeir séu að bíða eftir heimild,“ bætir Atli við

Ljósmynd: Berglind Jóhannsdóttir.

Íhuga að kæra framkvæmdina

„Við í Brimbrettafélaginu erum að íhuga að kæra, þetta eru okkar hagsmunir, við höfum sem fyrr segir fengið sérfræðinga að utan og kostnaðurinn við það hleypur á hundruðum þúsunda. Við ætlum að heyra í Umhverfisstofnun því að samkvæmt lögum eru þeir ekki með heimild til að varpa grjóti,og vikri og aðskotahlutum í hafið, og það er samkvæmt lögum er það óheimilt. Það stendur skýrt í 9 grein laga númer 33 frá árinu 2004, sem fjalla um varnir gegn mengun hafs og stranda, að varp efna og hluta í hafið sé óheimilt án leyfis og umsagnar frá Umhverfisstofnun og við höfum engar heimildir fyrir því að þetta leyfi hafi fengist.“

Breyting á deiliskipulagi var auglýst í skipulagsgátt og athugasemdir um framkvæmdina voru birtar nú um miðjan september. Í umsögn Umhverfisstofnunar um fyrirhugaðar framkvæmdir segir: „Að mati Umhverfisstofnunar er uppbygging á svæðinu farin að hafa áhrif á útivistargildi svæðisins sem er m.a. vinsælt fyrir brimbrettaiðkun og því farin að hafa áhrif á svæði sem er á náttúruminjaskrá. Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að hugað sé að verndun svæða til útivistar og skoðaðir séu aðrir valmöguleikar varðandi uppbyggingu athafnasvæðis.“

Auk þess bendir Umhverfisstofnun á að nú er töluverð starfsemi fiskeldis meðfram suðurströnd og frekari uppbygging í farvatninu. Því telur stofnunin mikilvægt að metin séu sammögnun áhrifa þeirrar uppbyggingar, sem hefur átt sé stað og eru fyrirhuguð, m.t.t. útivistar og hvort tillagan hafi neikvæð áhrif á verndargildi náttúruminja.

Í umsögn BBFÍ um afleiðingar deiliskipulagsbreytingartillögunnar segir að ef deiliskipulagsbreytingin verði samþykkt í núverandi mynd sé ljóst að verulegar breytingar verða á briminu á svæðinu. „Hluti af aðalbrotinu mun fara undir nýja landfyllingu og restin af brotinu er í hættu vegna afleiðuáhrifa frá breytingunum. Þar ber helst að nefna að endurkast brims af varnargarði sem og breytingum á straumum meðfram strandlengju/varnargarði. Hvort tveggja getur dregið úr tíðni og gæðum brims sem og gert aðstæður mun hættulegri. Fyrirhuguð landfylling mun gera það að verkum að brimbrettafólk kemst ekki upp úr sjónum, þar sem ógjörningur er að komast upp grófan grjótvarnargarð í miklu ölduróti, verði af fyrirhuguðum breytingum á strandlengjunni. Upplýsingar um breytingar á svæðinu myndu aldrei ná eyrum allra sem hana sækja enda dreifast iðkendur hennar um allan heim. Einnig sækja Íslensk ungmenni, sem hafa litla þekkingu á straumum hafsins þennan stað og sökum reynsluleysis geta þeir komið sér í mikla hættu verði af þessari breytingu.“

„Við teljum að útfæra megi stækkunina á höfninni betur en núverandi tillaga gerir ráð fyrir. Með réttri nálgun er hægt að taka tillit til þeirrar auðlindar sem er til staðar án þess að stækkun hafnarinnar eða bætt hafnaraðstaða líði fyrir. Forsenda fyrir því að vel takist er að samvinna verði á milli framkvæmdaraðila og hagsmunaaðila. Með tiltölulega litlum tilkostnaði er hægt að gera ítarlegar rannsóknir með stafrænum líkönum af svæðinu og með sérfræðiþekkingu af hafstraumum og brimi (þá sérstaklega m.t.t. hafnargerðar sem og brimreiða) er hægt að vernda þetta einstaka útivistarsvæði og stækka höfnina á sama tíma.“

Nýjar fréttir