0.6 C
Selfoss

Blómleg Bjórhátíð að baki

Vinsælast

Helgina 6.-7. október var Bjórhátíð Ölverk haldin hátíðleg í fjórða sinn. Á hátíðinni kynntu hinir ýmsu bjór-, ís-, gos, og kambucchaframleiðendur, ostagerðarfólk, framleiðendur á sterku áfengi, og allskyns „gourmet“ framleiðendur sínar nýjustu afurðir fyrir um 300 gestum við frábæra stemningu í gamla gróðurhúsinu, rétt við Ölverk, sem hýst hefur hátíðina undanfarin ár. Metþátttaka var meðal Íslenskra framleiðenda en þeir voru stórir sem smáir, allsstaðar af landinu, auk eins sem kom alla leið frá Bandaríkjum Norður-Ameríku, en framleiðendurnir í ár voru 34 talsins.

Laufey og Elvar, eigendur Ölverk. Ljósmynd: Aðsend.

„Þetta er orðinn árlegur viðburður og alltaf gaman að taka á móti gömlu góðu gestunum í bland við nýja. Þetta er orðið að viðburði sem fólk vill ekki missa af. Miðasalan gekk vonum framar og var uppselt á hátíðina. Sumir framleiðendanna buðu fólki að taka forskot á sæluna og gáfu smakk af jólabjórunum sem lenda annars ekki í hillum eða á dælum fyrren í nóvember, við góðar undirtektir hátíðargesta. Í bland við smakk frá framleiðendum sem er aðalpartur dagskrárinnar er heljarinnar matsala í gróðurhúsinu á vegum Ölverk, þar sem þemað er Októberfest og við gerum tilraunir með annarskonar matargerð en pizzugerðina sem Ölverk er þekktast fyrir, en í ár vorum við að vinna með pylsur og tacos og svona aðeins að fikra okkur áfram í annarskonar matargerð en við erum vön,“ segir Laufey Sif Lárusdóttir, eigandi Ölverk.

Margt var um manninn í suðrænu gróðurhúsinu á Bjórhátíð Ölverk um helgina.

„Inni í gróðurhúsinu er mikill hiti og myndast gjarnan svona frekar suðræn stemning. Við höfum verið í samstarfi við blómaskreytingafyrirtækið Blómdísi, en í ár fóru þær eiginlega hamförum og skreyttu gróðurhúsið frá toppi til táar í samstarfi við íslenska blómaframleiðendur og gerðu það að verkum að hátíðin var einkar blómleg þetta árið. Það er farið að sjást meira og meira að gestir mæti í hefðbundnum þýskum þjóðbúningum sem setur einstaklega skemmtilegan svip á hátíðina. Við buðum líka upp á andlitsmálningu, en Svona andlitsmálning sá til þess að öll sem vildu fengu yfirhalningu og annar hver karlmaður var kominn með glimmerskegg í lok kvöldsins,“ segir Laufey og hlær.

Svona andlitsmálun sá um að gestir væru fagurlega skreyttir á Bjórhátíð. Ljósmynd: Aðsend.

„Tónlistaratriðin voru ekki af verri endanum, en boðið var upp á danspartý og gleði til 1 bæði kvöldin. Þar komu fram MC Gauti, Prettyboy Chocko, FM Belfast DJ, Gullfoss og Geysir og Dj Atli Kanill léku fyrir fullu húsi og myndaðist frábær stemning og gleði meðal gesta. Fólk var afar ánægt með þetta framtak og við erum þakklát fyrir frábærar móttökur, án efa verður þetta endurtekið að ári,“ segir Laufey að lokum.

DFS.is fékk meðfylgjandi myndir sendar frá þessari skemmtilegu hátíð sem hefur skipað sér fastan sess hjá bjóráhugafólki víðsvegar af landinu, en Laufey minntist einnig á að það hversu mikil samstaða og vinátta ríki hjá öllum bjórframleiðendunum, hafi eflaust mikið að segja um það hversu góð stemning myndast á hátíðinni.

Nýjar fréttir