6.1 C
Selfoss

Árleg hrútasýning Hrunamanna

Vinsælast

Vel var mætt á árlega hrútasýningu sem Sauðfjárræktarfélag Hrunamanna sem haldin var laugardaginn 7. október sl. í reiðhöllinni á Flúðum. Margt var um mannninn og fagurt fé frá mörgum bæjum. Alls komu kindur frá tíu bæjum í sveitinni og gat þar að líta lambhrúta af ýmsum litum og gerðum og lambgimbrar sömuleiðis og margar mjög litskrúðugar. Einnig mátti sjá forystufé. Rollubingóið gerði að venju lukku og biðu viðstaddir í eftirvæntingu eftir því að ferhyrndur mórauður lambhrútur frá Syðra-Langholti gerði stykkin sín í rétta reitinn á bingóspjaldinu.

Helstu úrslit

Ljósmynd: Aðsend.

Sérlegir dómarar hrútasýningarinnar voru eins og undan farin ár Sigurfinnur Bjarkarsson frá Tóftum og Jökull Helgason á Ósabakka.  Þeir sýndu lipurð og natni í þukli og mati á skepnunum. Keppt var í hinum ýmsu flokkum. Í flokki mislitra lambhrúta varð efstur flekkóttur hrútur frá Grafarbakka, í öðru sæti varð morflekkóttur lambhrútur frá Langholtskoti undan Kurdo sæðingarstöðvarhrúti og í því þriðja varð svartgolsóttur hrútur frá Haukholtum 2 undan Satúrnusi af sæðingarstöðinni. Í hópi veturgamalla hrúta varð í fyrsta sæti hrúturinn Bjargvættur frá Kópsvatni sem er undan Viðari sem var á sæðingastöð, í öðru sæti hrútur var einnig hrútur frá Kópsvatni undan heimahrúti og í því þriðja var Greifi frá Hrafnkelsstöðum sem er undan heimahrút. Í fyrsta sæti í flokknum ,,best gerða gimbrin“ varð gimbur frá Kópsvatni sem er undan Gullmola (ARR-hrútur af sæðingarstöð), í öðru sæti og þriðja sæti voru gimbrar frá Hrepphólum undan Hvata sem er heimahrútur. Um fjörtíu hrútar komu til álita í flokki hvítra lambhrúta en þar varð efstur, eftir mikið þukl og vangaveltur hjá dómurum og forkeppni þar sem tíu sátu eftir, hrúturinn frá Kópsvatni undan Trúð (keyptur frá Stóru-Hámundarstöðum), í öðru sæti og þriðja sæti voru hrútar frá Hrepphólum undan Skara og Serk sem eru heimahrútar.  Þá var í fyrsta skipti keppt í flokki hrúta sem eru með verndandi arfgerð gegn riðu (T-137 eða ARR).  Þar stóð eftstur lambhrúturinn Hrollur frá Hrepphólum (faðir hans er Tollur sem keyptur var frá Stóru-Hámundarstöðum), í öðru sæti var hrúturinn Kópur frá Kópsvatni (undan fyrrnefndum Trúð) og í því þriðja var einnig hrútur frá Kópsvatni, Garri, sem er undan Gullmola af sæðingarstöðinni.  Sérstakt ánægjuefni var að sjá hve öflug lömbin voru sem komu á hrútasýninguna og bera með sér verndandi gen gegn riðu en sá sem vann flokk hvítra lambhrúta var einmitt með verndandi arfgerð.  Öruggt má telja að þeim skepnum eigi eftir að fjölga hratt á komandi árum.

Ljósmynd: Aðsend.

Þuklmeistarar krýndir og „íhaldsmaðurinn“ tilnefndur

Þá var gestum hrútasýningarinnar boðið að þukla fjóra lambhrúta og raða þeim upp eftir gerð. Góð þátttaka var í þuklinu og svo fór að Ásdís Helga Magnúsdóttir og Magnús Már Þórðarson, feðgin tengd Högnastöðum, ásamt Guðbjörgu Jóhannsdóttur frá Ásatúni urðu jöfn og efst. Þriggja manna sérvalin dómnefnd tók að sér að útnefna skrautlegustu gimbrina en þar komu margar fallegar til álita.  Sú sem vann þann flokk var svartgolsótt gimbur frá Langholtskoti.   Íhaldsmaður sýningarinnar var útnefnd Sigrún Eiríksdóttir frá Grafarbakka eftir lipra tilburði við að halda lambhrúti undir dóm. Stjórn Sauðfjárræktarfélagsins þakkar öllum gestum og þátttakendum á hrútasýningunni fyrir ánægjulega og vel heppnaða samveru.  Styrktaraðilar hrútasýningarinnar í ár voru: Lífland, Fóðurblandan, Sláturfélag Suðurlands, Aflvélar, Kjörís, Landstólpi, Þór, Nói Síríus og Farmers Bistro á Flúðum.

Nýjar fréttir