2.3 C
Selfoss

Sunnlensk tómatsúpa

Vinsælast

Sigurður Eyberg Guðlaugsson er sunnlenski matgæðingur vikunnar að þessu sinni.

Ég vil byrja á að þakka Eiríki Raphael Elvy kærlega fyrir þessa áskorun og frábæra uppskrift í síðustu viku. Eiríkur er magnaður þegar kemur að eldamennsku en afrek mín í eldhúsinu verða seint skráð á spjöld sögunnar. Ég ætla að töfra fram sunnlenska tómatsúpu sem hentar vel við hvaða tilefni.

Innihald:

10 ferskir sunnlenskir tómatar
3 msk. ólífuolía
30 g smjör
1 stk. laukur
5 stk. hvítlauksrif
2 dósir hakkaðir tómatar (um 800g)
4 greinar ferskt timjan
2 tsk. gróft sjávarsalt
1 tsk. svartur pipar
2 stk. handfylli af ferskri basilíku
250 ml vatn
2 stk. grænmetiskraftur (teningar)
2 msk.sykur
2 dl rjómi

Skref 1

Skerið fersku sunnlensku tómatana í tvennt og raðið þeim á ofnplötu með bökunarpappír.
Setjið ólífuolíu yfir alla tómatana og kryddið með salti og pipar.
Bakið í klukkustund við 180°C.

Skref 2

Setjið smjör í pott, skerið niður lauk og steikið þar til laukurinn er orðinn ljós gylltur að lit.
Skerið niður eða pressið hvítlaukinn, bætið saman við og steikið léttilega.
Setjið tómatana úr dós saman við ásamt grófsaxaðri basilíku, fersku timjan, salti og pipar og leyfið suðunni að koma upp.
Setjið vatn saman við ásamt grænmetisteningum og hrærið vel saman.

Látið sjóða í um 10-15 mínútur.

Skref 3

Þegar tómatarnir hafa bakast í ofninum er þeim bætt saman við.
Maukið súpuna með töfrasprota þar til súpan er orðin mjúk og slétt og látið hana sjóða í stutta stund.
Blandið rjóma saman við og hrærið vel.

Gott er að smakka súpuna til og ef til vill salta eða bæta svörtum pipar við ef þarf.

Ég ætla að senda boltann yfir til Búlgaríu á Viðar Örn Kjartansson – knattspyrnumann. Viðar er einstaklega liðtækur í eldhúsinu en síðastliðin 10 ár hefur hann búið erlendis og kynnst fljölbreyttri matargerð. Það verður virkilega spennandi að sjá hvað hann töfrar fram í næstu viku.

Nýjar fréttir