9.5 C
Selfoss

Slökunarkvöld til styrktar Bleiku slaufunni.

Vinsælast

Bryndís Guðmundsdóttir.

Endurnærandi kyrrðar- og slökunarkvöld verður í Safnaðarheimili Selfosskirkju þriðjudaginn 3. október þar sem boðið verður uppá Jóga Nidra sem er leidd hugleiðsla inn á djúpt svið slökunar.

Viðburðurinn hentar fyrir alla 18 ára og eldri sem vilja gefa sér gæðastund fyrir sig til að upplifa endurnærandi áhrif djúpslökunar og um leið sýna samstöðu og styrkja söfnunarátak Bleiku slaufunnar.

Þetta er einstök aðferð til að upplifa algjöra hugaró þar sem við finnum okkur á milli svefns og vöku og gefum líkamanum færi á að slaka alveg á. Auk þess sem þessi slökunartækni hefur gífurlega góð og róandi áhrif á taugakerfið, bætir svefninn og andlega líðan og er því mjög vinsæl til að ná jafnvægi í nútíma lífi þar sem hraði, áreiti og annríki er oft mikið og hefur áhrif á bæði heilsu okkar, svefn, orkuna, tilfinningar og samskipti.
Jóga Nidra hentar fyrir alla hvort sem er til að bæta heilsu sína og líðan eða til að viðhalda góðri heilsu og krefst ekki sérstaks klæðnaðar, bara vera í þægilegum fötum sem þrengja ekki að.

Hver og einn tekur með sér dýnu, teppi og púða til að láta fara vel um sig þar sem þetta er liggjandi slökunaraðferð, en einnig er hægt að sitja á stól ef einhver treystir sér ekki til að liggja.

Þátttakendur eru beðnir að mæta tímanlega til að koma sér fyrir.
Húsið opnar kl 19.30 og er slökunarstundin frá kl 20-21.

Það eru allir velkomnir meðan húsrúm leyfir og eru áhugasamir beðnir um að fara inná viðburðinn á Facebook og merka við „MÆTI“, svo hægt sé að sjá ca fjöldann sem kemur og gera ráðstafanir með pláss.

Engin aðgangseyrir er á viðburðinn en tekið verður við frjálsum framlögum í söfnunarkassa við innganginn og mun allt sem safnast þetta kvöld renna beint til Bleiku slaufunnar. ATH – það verður ekki posi á staðnum.

Það er Bryndís Guðmundsdóttir sem stendur fyrir þessum viðburði, en hún hefur verið Jógakennari frá 2006 og er löggiltur Jóga Nidra Advanced kennari frá Amrit Yoga Institute og hefur leitt fjöldann allan af slökunartímum undan farin ár með góðum orðstír.

Bryndís greindist sjálf með brjóstakrabbamein í byrjun júní 2022 og fór í gegnum allt ferlið, þ.e.a.s brjóstnám, lyfjameðferð og geisla og reyndist Krabbameinsfélagið henni einstaklega vel strax við greiningu og í gegnum meðferðina, en auk þess stundaði hún Jóga Nidra daglega í gegnum allt ferlið.

Nú langar Bryndísi að gefa af sér til baka til Krabbameinsfélagsins og ákvað að bjóða uppá þessa slökunarstund og styrktarkvöld fyrir Bleiku slaufuna.
Þema Bleiku slaufunnar í ár er SAMSTAÐA og því er tilvalið fyrir áhugasama að sýna samstöðu og gefa sjálfum sér gæðastund fyrir sig og láta um leið eitthvað af hendi rakna til þessa mikilvæga verkefnis. Munum að margt smátt gerir eitt stórt.

Nýjar fréttir