2.8 C
Selfoss

Bleikur október er framundan

Vinsælast

Október mánuður er framundan og er hann oft vel skreyttur bleikum lit í allskyns útfærslum. Bleiki liturinn er táknrænn fyrir árverkni-og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins þar sem sjónum er beint að baráttuni gegn krabbameinum hjá konum. Einstaklingar, hópar og sífellt fleiri fyrirtæki og stofnanir hafa síðustu ár tekið virkan þátt í Bleikum október og sýnt þar með samstöðu og styrk til allra þeirra kvenna og fjölskyldna þeirra sem hafa greinst með krabbamein.

Dagskrá Krabbameinsfélags Árnessýslu í október er fjölbreytt og hvetjum við alla til að nýta sér þá fræðslu og samveru stundir sem boðið er uppá. Dagskrá mánaðarins má finna á Facebook síðu félagsins eða hafa samband við okkur í síma 482 1022 eða á netfangið arnessysla@krabb.is

Bleika boðið er árlegur fjáröflunarviðburður sem félagið heldur í október í samstarfi og með stuðningi fjölmargra fyrirtækja, listamanna og einstaklinga í samfélaginu sem leggja viðburðinum lið með ýmsum hætti. Viðburðurinn stækkar ár frá ári og samhugurinn sem ríkir er með öllu ólýsanlegur. Bleika boðið verður haldið þann 6.október á Hótel Selfossi, fjáröflunin liggur í sölu happadrættismiða en aðgangur að boðinu er frír.

Listakonan Ninný hefur gefið félaginu fallegt málverk að gjöf sem er á uppboði til 18. október og rennur söluupphæð óskipt til starfsemi félagsins. Gellerý Listasel er í góðu samstarfi við félagið og heldur utan um boð í málverkið sem er til sýnis í gallerýinu.

Fjáröflun er eitt af stóru verkefnum félagsins þar sem öll starfsemi er rekin á styrkjum og framlögum velunnara. Samvinna og stuðningur samfélagsins er forsenda þess að hægt er að halda úti eins öflugu og sterku félagsstarfi og Krabbameinsfélag Árnessýslu gerir. Bestu þakkir til ykkar allra sem hafa lagt okkur lið.

Okkur í Krabbameinsfélagi Árnessýslu hlakkar til að eiga Bleikan október með ykkur, njóta samveru og stuðnings og beita kröftum okkar til að efla baráttuna gegn krabbameinum og stuðning til þeirra fjölskyldna sem hafa þurft að takast á við þennan illvíga sjúkdóm.
Hvetjum alla til þátttöku í að skreyta bæinn bleikan!

Fyrir hönd stjórnar Krabbameinsfélags Árnessýslu
Svanhildur Ólafsdóttir, formaður

Nýjar fréttir