11.7 C
Selfoss

Öflugt samstarf skóla og heimila

Vinsælast

Þessa dagana lifnar samfélagið við á ný að loknu sumarleyfi grunnskólana. Mikil eftirvænting skín úr andlitum nemenda þegar skólastarfið hefst á nýjan leik og bros færist yfir andlit foreldra og forráðamanna þegar festa skóladagsins kemur römmum á lífið. Samfélagið kallar á samspilið sem verður til á milli heimilis og skóla og skólinn verður aldrei betri en þegar það samspil framkallar gæði.

Samkvæmt Lögum um grunnskóla frá 2008 skal foreldrafélag starfa við hvern grunnskóla á landinu. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimilis og skóla. Það er ekki að ástæðulausu að í 9. grein Laga um grunnskóla komi þetta skýrt fram því þó eðli foreldrastarfs við grunnskóla hafi verið í stöðugri þróun síðustu áratugi hefur mikilvægi þess verið viðurkennt og ljóst þeim sem að grunnskólastarfi koma.

Foreldrastarf hefur bæði þróast út frá verkefnum og áherslum skólastarfsins á hverjum tíma og einnig út frá tíðaranda samfélagsins og þeim verkefnum og viðfangsefnum sem þar eru efst á baugi. Sem dæmi um fjölbreytta aðkomu foreldrafélaga má nefna umsjón bekkjakvölda og viðburða, skipulagningu foreldrarölts og aðkomu að skipulagningu og framkvæmd forvarnarmála.

Að loknum heimsfaraldri skiptir miklu máli að blása í lúðra og efla samstarf heimilis og skóla en nokkuð hefur borið á því að virkni foreldra hafið fallið niður í faraldrinum og í kjölfar hans. Þetta hefur gerst á landsvísu og hafa samtökin Heimili og skóli boðið foreldrafélögum stuðning og aðstoð við að koma krafti í foreldrastarf á ný þar sem þörf er á. Þar er m.a. lögð áhersla á mikilvægi bekkjartengla, fræðslu fyrir foreldra og forráðamenn ásamt hvatningu fyrir þátttöku foreldra í skólastarfi.

Foreldrafélag Vallaskóla á Selfossi hefur verið starfrækt síðan í nóvember 2002 eða frá stofnun skólans. Miðvikudagskvöldið 6. september næstkomandi fer fram aðalfundur foreldrafélagsins í Austurrými í Vallaskóla kl. 20:00. Þar gefst foreldrum og forráðamönnum kostur á að láta til sín taka og að láta rödd sína heyrast. Mjög mikilvægt er að þar verði öflug og góð mæting.

Að lokum vil ég vil hvetja foreldra og forráðamenn á Suðurlandi að vera virkir og sýna frumkvæði í samstarfi við grunnskólana. Faglegt og uppbyggilegt samtal um skólamál og farsæld grunnskólabarna er einn af stóru lyklum farsæls skólastarfs.

Páll Sveinsson,
skólastjóri Vallaskóla í Árborg.

Nýjar fréttir