7.8 C
Selfoss

Ljón Norðursins

Vinsælast

…Athafnamaðurinn með barnshjartað

Einn frægasti maður Selfoss fyrr á árum var Leó Árnason, Ljón Norðursins. Leó var fæddur á Mánavík nyrst á Skaga. Hann var afi Leós Árnasonar sem margir kalla nú Ljón Suðursins. Gamli Leó var einn mesti athafnamaður Íslands á tímabili og talinn einn auðugasti maður landsins, bæði brilljant og brjálaður, hlaðinn fídónskrafti. Sem dæmi þegar krafturinn var mestur ók hann á kádilják en það gerðu bara auðugir menn.

Í Þjóðviljanum var viðtal við kappann 1987, sem hófst á þessari mannlýsingu. „Það stafar af honum ljóma þar sem hann situr við borð sitt í Gyllta Salnum á Hótel Borg, grásprengt hárið sem gengur í bylgjum upp af hvelfdu enninu, loðnar augabrýr sem geyma leiftrandi augu, er lýsa undarlegu samblandi af stráksskap og stórmennsku, alhvítt skeggið sem undirstrikar dökkt yfirbragð og gráteinóttur jakki, sem liggur laus á báðum öxlum. Og gefur til kynna ásamt með vindlinum á milli fagurmótaðra fingra og flúruðum stafnum við stólbríkina að hér situr höfðingi í stafni.“ „Ég er vökumaður og sjáandi,“ segir hann. „Einfarinn með stafinn í eyðimörkinni.“ Í viðtalinu lýsir Leó mögnuðu uppeldi sínu og lífshlaupi sem átti sér engan líka. Leó segir í viðtalinu: „Ég fór í Hólaskóla og þótti strax öðruvísi en fólk er flest. Ég var hringjari í skólanum og komst áfram á kröftunum. Það stóðust fáir mér snúning í slagsmálum, og það þótti fyrir mestu á þeim árum.“

Leó Árnason, Ljón Norðursins.

Leó gerði út og smíðaði trillu í Grindavík og varð ráðsmaður hjá Ólafi Ísleifssyni lækni í Þjórsártúni og fór síðan í Laugarvatnsskólann. Loks náði hann sér í réttindi sem trésmiður og smíðaði 300 íbúðir, gaf 6 þeirra fátækum. Rak prjónastofu í Hveragerði með 50 manns í vinnu. Síðar íssjoppu fyrir Pálma Jónsson í Hagkaupum og Steingrím Hermannsson síðar forsætisráðherra  sem hét  Ísborg og var undanfari EMMESSÍS. Hann stofnaði verkalýðsfélagið Óðinn sem ungur Sjálfstæðismaður og rak fræga söltunar og fiskvinnslu á Selfossi þar sem 40-60 manns störfuðu. Hann hannaði og smíðaði allar innréttingar í Selfossbíó forðum og margir muna vel. Nú verður Selfossbíó byggt á ný með sínum gömlu innréttingum.

Nú skulum við snúa okkur að því þegar listamaðurinn var aftur kominn heim á Selfoss og gekk hér sem öldungur um göturna. Kominn sárfæddur úr reyðimörk-inni og vakti athygli fyrir glæsileika. Okkar fundum bar fyrst saman í Gjánni sem var bar í kjallara Kaupfélagshússins eða ráðhúsi Árborgar í dag. Þar hittust Selfyssingar á þeim tíma síðar í Inghól og nú í hinum nýja miðbæ.

Ég heillaðist af þessum leiftrandi manni. En síðustu samskipti okkar voru eftirfarandi. Það er í janúar 1995 kosningar til Alþingis framundan um vorið. Leó er kominn á Sjúkrahús Suðurlands. Hafsteinn Þorvaldsson hefur búið honum góða aðstöðu á Sjúkrahúsinu. Leó situr löngum stundum á stigapalli með trönur sínar, þar málar hann og hefur leyfi til að reykja. Oft þegar hallarekstur angraði sjúkrahúsið sagði hann við Hafstein „ekkert vandamál ég mála mynd og hallinn hverfur eins og dögg fyrir sólu.“

Nú bar svo við að hann kallar til mín: „Komdu hérna Guðni minn mér þykir alltaf vænt um Brúnastaðafólkið og nú ætla ég að kjósa þig í vor. En ég er að klára mynd sem ég ætla að færa þér til heilla. Sestu nú niður og skrifaðu ljóðið,“ svo flutti hann ljóð beint af munni fram, ég skrifaði og enn má sjá sígarettublandað munnvatnið sem rigndi yfir mig og á hvítt blaðið.

Ljóðið sem Guðni skrifaði upp eftir Leó, Ljón Norðursins. „Enn má sjá sígarettublandað munnvatnið sem rigndi yfir mig og á hvítt blaðið.“ Ljósmynd: DFS.is/HGL.

Nú færi ég Árna Leóssyni málverkið að gjöf en hann fæddist um það leyti og við langafi hans hittumst. Ljóðið sem ég skrifaði hljóðar svo og fylgir myndinni:

Þú foss sem þér leikur á gljúfruðu fangi
ert frjáls í því landi sem þér lífið bjó.

Þú ert að þylja mér sögur og tala við börnin
sem hlupu um rindabörðin og mó,
í saklausri gleði og frjáls eins og fuglar.

Þau þustu á prikum og höfðu sem hest
allt var í einu greipt í þann unað
sem maður og moldin una við best.

Guðni Ágústsson

Nýjar fréttir