7.8 C
Selfoss

Eflum heilsugæsluna í Laugarási

Vinsælast

Mikil umræða hefur átt sér stað um málefni Heilsugæslunnar í Laugarási að undanförnu, sem kemur ekki á óvart enda málefnið alvarlegt svo vægt sé til orða tekið. Læknir hefur haft aðsetur í Laugarási frá árinu 1922 eða í rúmlega hundrað ár. Sveitarfélögin í Uppsveitum keyptu þá jörðina fyrir lækni sem þar skyldi vera staðsettur og sinna íbúum þessara sveitarfélaga. Síðan þá hefur læknir verið starfandi í Laugarási. Mikil sátt hefur verið um starfsemina alla tíð enda hafa ætíð starfað hæfir læknar við heilsugæsluna í Laugarási sem sinnt hafa íbúum svæðisins af mikilli fagmennsku og alúð.

Nú ber svo við að Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) hefur sagt upp bakvöktum lækna í Laugarási og tekur sú ákvörðun gildi frá og með 1. september nk. Læknar hafa verið á bakvakt eftir að dagvinnutíma lýkur til að sinna mjög alvarlegum slysum og veikindum þar sem hver mínúta skiptir máli og getur haft áhrif á líf eða dauða. Ef ákvörðun stjórnenda HSU stendur óbreytt verður enginn læknir á bakvakt í Laugarási frá og með 1. september. Viðbragð frá Selfossi á að sinna þessum forgangsútköllum í Uppsveitum. Það gefur auga leið að viðbragðið mun í flestum tilfellum lengjast með þeirri hættu sem það hefur í för með sér.

Íbúar í Uppsveitum eru um 3.500 og fjölgar þeim ört. Þá eru um 6.000 sumarhús á svæðinu. Ef miðað er við að það séu að meðaltali fjórir í hverju sumarhúsi yfir sumarið þá dvelja um 24.000 manns í sumarhúsum á svæðinu. Ekki má gleyma vinsælustu og fjölsóttustu ferðamannastöðum landsins. Um 80% ferðamanna sem koma til landsins heimsækja Gullfoss, Geysi og Þingvelli auk annarra vinsælla áfangastaða. Ljóst er því að gríðarlegur fjöldi fólks er á svæðinu á hverjum tíma. Það er ekki nóg að miða eingöngu við íbúafjölda þegar þjónusta og umfang hennar er ákveðið. Ráðamenn hafa síðustu ár verið hvattir til að efla heilsugæsluna í Uppsveitum. Vel hefur verið tekið í þær hugmyndir en nú er reyndin allt önnur, dregið er úr þjónustunni.

Það skýtur skökku við að segja upp bakvöktum lækna í Laugarási í hagræðingarskyni, starfsemina ætti frekar að efla og styrkja. Má í því sambandi nefna sjúkrabíl sem staðsettur væri í Uppsveitum með sérmenntuðu og hæfu fólki. Að spara einhverjar fjárhæðir með uppsögn á bakvöktum eru engir fjármunir í samanburði við eitt mannslíf sem ekki tekst að bjarga vegna þess að hjálpin barst ekki í tæka tíð. Þá er mikilvægt að lögregla sé með fasta viðveru á svæðinu alla daga ársins. Efla þarf viðbragð í Uppsveitum, ekki draga úr því!

Þeir læknar sem starfað hafa í Laugarási síðustu ár hafa sagt upp sínum störfum í kjölfar þess að bakvöktunum var sagt upp. Forsendubreyting hefur orðið hjá þeim miðað við það sem þeir réðu sig til á sínum tíma, og er skiljanlegt að menn bregðist við því. Nú veit ég ekki hvernig gengur að ráða nýja lækna í Laugarás en reynslan víðsvegar um landið segir að slíkt geti verið þrautin þyngri.

HSU hefur ekki tilkynnt íbúum á svæðinu um þessa þjónustuskerðingu. Það eykur óöryggið sem ákvörðunin hefur í för með sér. Sveitarstjórnum var heldur ekki tilkynnt þessi ákvörðun heldur barst hún okkur til eyrna og var svo staðfest af stjórnendum HSU þegar um það var spurt.

Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur mótmælt þessari ákvörðun stjórnenda HSU og hvatt til þess að ákvörðunin verði endurskoðuð. Það er alltaf hægt að gera mistök, þau eru til að læra af og ég vonast til að stjórnendur HSU bregðist við og endurskoði ákvörðunina.

Ég vil bjóða stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á íbúafund í Aratungu til að fara yfir málið og svara fyrirspurnum íbúa um málefni heilsugæslunnar í Laugarási.

Helgi Kjartansson,
Oddviti Bláskógabyggðar

Nýjar fréttir