7.8 C
Selfoss

Blómstrandi dagar hefjast í dag

Vinsælast

Blómstrandi dagar hefjast í dag í Hveragerði og standa fram á sunnudag
Apinn Bóbó og Tívolíið eru komin heim fyrir Blómstrandi daga!
Blómaball, brekkusöngur, Ísdagur Kjörís og eitthvað fyrir alla

Það er sannarlega umfangsmikil dagskrá framundan á menningar– og fjölskylduhátíðinni Blómstrandi dögum í Hveragerði. Hátíðin verður sett fimmtudaginn 17. ágúst og stendur til sunnudagsins 20. ágúst. Bæjarbúar leggja hátíðinni lið með því að skreyta sitt hverfi og sinn garð. Mikil stemning hefur einnig myndast í kringum bílskúrsmarkaði og gallerí út um allan bæ. Verðlaun verða veitt fyrir fallegustu, frumlegustu og mestu garða- og húsaskreytingarnar, og fyrir fallegustu götuna. Þá verður hið rómaða Blómaball á sínum stað og stærra en áður, en í ár verður ballið haldið í Íþróttahúsinu við Skólamörk. Hljómsveitin Stjórnin og Herra Hnetusmjör halda uppi stemningunni og heimamennirnir í hljómsveitinni Kopafeiti hefja ballið.

Fjöldi frábærra listamanna og viðburða

Meðal þeirra sem koma fram á Blómstrandi dögum eru Helgi Björns, Guðrún Gunnarsdóttir, Emmsjé Gauti, Sigga Ósk, Eyjólfur Kristjánsson og fjöldi annarra tónlistarmanna. Áhersla er lögð á uppákomur frá fimmtudegi til sunnudags þótt hápunktur hátíðarinnar sé á laugardeginum. Áhugaverðar listsýningar og fjölbreyttir tónlistarviðburðir eru í bænum þessa daga fyrir alla aldurshópa. Taylors Tívolí setur upp skemmtilegt tívolí í hjarta miðbæjarins og glæsilegir tónleikar verða haldnir yfir miðjan dag alla daga og einnig  á laugardagskvöld þar sem kvöldinu lýkur með brekkusöng með Eyfa Kristjáns og flugeldasýningu.

Apinn Bóbó loksins kominn aftur heim

Það eru ekki bara brottfluttir Hvergerðingar með sterkar taugar til bæjarins sem nú sogast aftur heim í Hveragerði. Því það er nokkrir miklir “Hvergerðingar” komnir aftur heim um helgina. Þar ber fyrst að nefna apann Bóbó sem margir muna eftir úr Eden. Hann kemur heim um helgina og er búinn að fá tímabundið lögheimili í Blómaborg. Þar mun Bóbó bregða á leik fyrir gesti og gangandi fyrir nokkrar krónur sem allar renna til Einstakra barna. Nýir eigendur Blómaborgar, Áslaug Hanna og Jónas Sig verða með opið alla helgina og þar verður listsýning og fleira auk okkar manns Bóbó. Þeir sem sáu leikritið um Elly VIlhjálms muna líka að lifandi apinn sem Elly flutti inn til Íslands fyrir all nokkru var einmitt í Michelsen Blóm sem nú er Blómaborg.

Tívolíið er líka komið heim

Taylors Tivoli opnar tækin sín í dag á Blómstrandi dögum. Þau eiga mjög sterka tengingu við Hveragerði því faðir núverandi framkvæmdastjóra Taylors keypti stærstu tækin úr Tívolíinu í Hveragerði þegar það lagði niður starfsemina. Mikið af þeim tækjum endaði í afþreyingargarði í Suður Afríku en klessubílarnir og hringekjan eru ennþá í þeirra eigu. Þorgils Gunnarsson deildi því í vikunni á Facebook-síðu Blómstrandi daga að hann hefði fylgt tivolítækjunum frá Hveragerði alla leið til Zimbabwe, síðan Botswana, fórum þaðan til og loks til Mozambique í Suður-Afríku.. Þar sagðist hann meðal annars hafa stjórnað þeytivinduni sem upphaflega var í Hveragerði. Vitanlega eru þetta ekki sömu tæki og seld voru úr landi 1993 en sannarlega sami eigandi og þá og enn þá í blómstrandi “bísness” Meðfylfjandi er mynd af Þorgils sem hann birti af sér í Suður-Afríku þar sem hann ferðist með þeytivindunni frægu úr Tívolíinu úr Hveragerði.

Dagskráin er fjölbreytt:

• Markaðstorg, bílskúrssölur, listsýningar og opnar vinnustofur
• Fornbílar, söguferðir og glæsileg flugeldasýning
• Brekkusöngur með Eyfa Kristjáns
• Helgi Björns og Emmsjé Gauti
• Leikhópurinn Lotta og barnaball Diskóteksins Dísu
• Guðrún Gunnars syngur íslenskar dægurperlur og Jazzband Ómars Einars
• Blómaball með Stjórninni og Herra Hnetusmjör
• Teygjuhopp – Klessuboltar – Vatnaboltar við Lystigarðinn
• Ísdagurinn Kjörís

Sjáumst á Blómstrandi dögum! Alla frekari dagskrá Blómstrandi daga er að finna á www.hveragerdi.is

Nýjar fréttir