11.7 C
Selfoss

Skora á HSU að tryggja bráðaþjónustu í uppsveitum Árnessýslu

Vinsælast

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps skorar á stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Suðurlands að tryggja íbúum og gestum Uppsveita Árnessýslu eins góða bráðaþjónustu og kostur er, sérstaklega í ljósi þess gríðarlega fjölda fólks sem hér dvelur daglega, allt árið um kring, bæði íbúar og ekki síður gestir svæðisins.

Áskorun þessi var birt eftir síðasta fund sveitarstjórnar Hrunamannahrepps sem fram fór þann 3. ágúst sl. en Díana Óskarsdóttir, forstjóri HSU, tengdist fundinum í gegnum fjarfundarbúnað og gerði grein fyrir skipulagsbreytingum sem fyrirhugaðar eru í Laugarási.

Í greinagerð segir að samningum um bakvaktir lækna sem starfa í Laugarási hafi verið sagt upp frá og með 1. september næstkomandi. „Eftir mánuð verður þar með enginn læknir á vakt í Uppsveitum Árnessýslu eftir að dagvinnu lýkur en læknir á bakvakt hefur hingað til sinnt bráðatilfellum sem komið hafa upp á svæðinu.“

Þá segir að sveitarstjórn Hrunamannahrepps telji afar mikilvægt að gott viðbragð sérhæfðra aðila sé til staðar í Uppsveitum Árnessýslu, að fyrsta viðbragð sé öflugt og að brugðist sé hratt og vel við þegar mínútur geta skipt sköpum.

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps skorar á stjórnendur HSu að tryggja bráðaþjónustu í Uppsveitum, þar mætti til dæmis nefna mögulega viðveru sjúkrabifreiðar og sérhæfðra sjúkraflutningamanna sem sinnt gætu fyrsta viðbragði en slíkt væri algjörlega nauðsynlegt ef að fyrirhugaðar breytingar á bakvöktum verða að veruleika.

„Öflug heilsugæsla er afar mikilvæg hverju samfélagi og því nauðsynlegt að henni sé sinnt eins og lög gera ráð fyrir. Það er sveitarstjórn Hrunamannahrepps kappsmál að heilsugæsla í Uppsveitunum sé með þeim hætti að hún geti sinnt þörfum íbúa og gesta svæðisins með sem allra bestum hætti og að öryggi þessa stóra hóps sé þar með vel tryggt,“ segir enfremur í greinagerðinni. Þá hvetur sveitarstjórn stjórnendur HSu til að skoða þann möguleika að læknavakt verði í boði seinnipart dags í Uppsveitum.

Nýjar fréttir