13.4 C
Selfoss

Verð rangeygður af því að lesa Thomas Bernhard

Vinsælast

…segir lestrarhesturinn Brynjólfur Þorsteinsson

Brynjólfur Þorsteinsson er þrjátíu og tveggja ára rithöfundur frá Hvolsvelli. Hann bjó á Selfossi um tíma og gekk í FSu. Brynjólfur hefur gefið út þrjár bækur, ljóðabækurnar Þetta er ekki bílastæði og Son grafarans og skáldsöguna Snuð sem kom út í fyrra.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Milan Kundera féll frá á dögunum og ég fattaði að ég hafði aldrei lesið Ódauðleikann eftir hann, sem margir segja að sé hans besta bók, þannig ég skottaðist á bókasafnið. Svo er ég að hlusta á Arfur og umhverfi eftir Vigdisi Hjörth, svona þegar ég nenni að fara út að hlaupa eða ryksuga eða eitthvað en hún var einhver skemmtilegasti gesturinn á Bókmenntahátíð í Reykjavík um daginn. Svo var ég að kaupa mér Rúmmálsreikningur 1 eftir Solvej Balle sem ég er mjög spenntur fyrir, fjallar um konu sem lifir sama daginn aftur og aftur, eins og Groundhog Day nema danskur sjöleikur um eðli tímans, fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2022.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Tilraunakenndar og nýjungagjarnar. Hressar og skemmtilegar. En líka gamlar og leiðinlegar.

Ertu alinn upp við lestur?

Ég las aðallega Andrésblöð sem krakki en pabbi var duglegur að lesa fyrir mig á kvöldin. Mamma er mikill lestrarhestur og afi átti gott bókasafn sem ég gekk í. Þannig að já, ég myndi segja það.

Hvernig lýsir þú lestrarvenjum þínum?

Ég les margar bækur í einu og klára ekki alltaf. Ekkert sérstaklega góðar venjur en það er hægt að venja sig á margt verra.

Áttu þér uppáhaldshöfund?

Þeir eru nokkrir, já. Fjodor Dostojevskí snerti taug í mér þegar ég var í kringum tvítugt, sem er rétti tíminn til að lesa Dostojevskí held ég. Ungverski rithöfundurinn Laszlo Krasznahorkai er í miklu uppáhaldi, hann er einfaldlega meistari, ég skal hundur heita ef hann fær ekki Nóbelinn áður en hann hrekkur upp af. Thomas Bernhard er líka í miklum metum hjá mér þessa dagana, enginn skrifar þráhyggju betur, maður verður rangeygður af því að lesa hann lengi, sem er kostur í mínum bókum.

Einhverjar uppáhaldsbækur?

Uppáhaldsbækurnar mínar eru tvær: Meistarinn og Margaríta eftir Mikhaíl Búlgakov sem opnaði fyrir mér heim bókmenntanna þegar ég var unglingur og The Melancholy of Resistance eftir Laszlo Krasznahorkai sem gerði eitthvað óafturkræft við höfuðið á mér þegar ég las hana þegar ég var svona 25 ára.

Hefur bók einhvern tímann rænt þig svefni?

Mínar eigin, já, svona þegar maður er í miðjum skrifum.

Hvernig lýsir þú svo eigin verkum?

Það er góð spurning. Skáldsagan Snuð, sem kom út fyrir jól, fjallar um mann sem elskar að sjúga snuð, þannig ætli ég segi ekki að bækurnar mínar fjalli um menn sem elska að sjúga snuð.

___________________________________________________

Tillögur að áhugaverðum lestrarhestum sendist á jonozur@gmail.com

Nýjar fréttir