0.6 C
Selfoss

Sumargleði í miðbænum

Vinsælast

Það verður svo sannarlega mikið um að vera í miðbæ Selfoss í kringum verslunarmannahelgina og Sumar á Selfossi frá 3.-13. ágúst.

Risaskjár verður settur upp á Brúartorgi og verða fjölbreyttir viðburðir í tengslum við hann. Skjárinn hefur verið uppi á Brúartorgi tvö síðustu ár í tengslum við stór fótboltamót og hefur myndað einstaklega skemmtilega stemningu.

„Stærsti viðburðurinn í ár verður þegar við endurtökum leikinn frá því í fyrra og sýnum frá Brekkusöngnum í Eyjum í beinni útsendingu sunnudaginn 6. ágúst. Í fyrra var torgið gjörsamlega fullt og stemningin stórkostleg. Við vonumst til að sjá jafn mikið af fólki í ár og erum vel undirbúin, veitingastaðir lengja opnunartíma þetta kvöld, útibarir verða á svæðinu, kokteilastöð, markísur úti og hitarar í gangi.“ Segir Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri í miðbænum.

Ljósmynd: Aðsend.

Dagskrá Sumargleðinnar höfðar til allra og byrjar með Bingó á Brúartorgi á fimmtudaginn nk. kl. 17, enginn aðgangseyrir og frábærir vinningar. Sýnt verður frá útsendingu Helga Björns „VerslunarmannaHelgi“ á laugardagskvöldinu. „Við munum svo sýna bíómyndir á skjánum, bæði barnamyndir á morgnana kl. 11 þar sem Groovís mun bjóða upp á kleinuhringi og kókómjólk á meðan á mynd stendur. Á kvöldin sýnum við svo klassískar skemmtilegar myndir eins og Með allt á hreinu, Síðasta veiðiferðin, Grease og fl.“ Segir Elísabet.

Bæjarhátíðin Sumar á Selfossi hefst fimmtudaginn 10. ágúst. Það kvöld munu Leifur Viðars og Már stýra kahoot pub quiz á Brúartorgi og í framhaldinu mætir Guðrún Árný í tröppusöng „singalong“. „Við vorum með sambærilegan viðburð í fyrra í samstarfi við Sumar á Selfossi sem vakti mikla lukku. Þetta er byrjunin á einni stærstu og skemmtilegustu helgi sumarsins á Selfossi.“

Á laugardeginum verður Zumbapartý á torginu með kokteilum frá Miðbar í lokin. Einnig verður sett upp tjald á torginu þar sem boðið verður upp á ýmislegt skemmtilegt eins og axlarnudd, skeggsnyrtingu, andlitsmálningu og jafnvel tarotlestur. Gleðinni lýkur svo sunnudaginn 13.ágúst með fjölskyldu kahoot á torginu. Brúarhlaupið er einmitt þennan morgun og því upplagt að enda helgina í kahoot með Leifi og Má.

Dagskránna í kringum Sumargleðina má finna á samfélagsmiðlum Miðbæjar Selfoss og á viðburðinum „Sumargleði í miðbænum“ á Facebook.

Nýjar fréttir