8.9 C
Selfoss

Fljót að finna mér góða skvísubók

Vinsælast

Ragnheiður Guðjónsdóttir.

Lestrarhesturinn að þessu sinni er Ragnheiður Guðjónsdóttir.

Ragnheiður Guðjónsdóttir er fædd og uppalin í Hrunamannahreppi en er sem stendur búsett í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni vorið 2020, hússtjórnarprófi frá Hússtjórnarskólanum í Reykjavík haustið 2020 og stundar nú grunnnám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Ragnheiður er ein fimm ungra kvenna sem mynda ritlistarkollektívuna Yrkjur en þær hafa staðið að upplestrarkvöldum og vinnustofum í skapandi skrifum, bæði á eigin vegum og í samstarfi við Reykjavík, Bókmenntaborg UNESCO. Ragnheiður hefur einnig setið í ritstjórnum, bæði hjá tímaritinu Leirburði, sem gefið er út af bókmenntafræðinemum við Háskóla Íslands og norræna safnritinu, Væng við væng sem gefið var út af Orðskjálfta.

Hvaða bók ertu að lesa núna?

Þessa stundina er ég að lesa tvær skáldsögur en þær eru annars vegar Ferð til Indlands eftir E.M. Forster og Sölku Völku eftir Halldór Laxness. Ég hef ætlað mér í einhvern tíma að lesa fyrrnefndar bækur en ástæðan fyrir því að þær eru til lestrar þessa stundina er sú að ég er farin að huga að B.A.-ritgerðarskrifum og er að kanna hvort þær eigi við til umfjöllunar þar. Einnig er ég að hlusta á bók, Mad About You eftir rithöfundinn Mhairi Mcfarlane, en þann höfund uppgötvaði ég fyrir tilviljun á Storytel og þykir hún skrifa nokkuð skemmtilegar bækur sem auðvelt er að gleyma sér í.

Hvers konar bækur höfða helst til þín?

Segja má að allskonar bækur höfði til mín enda les ég mikið af þeim í náminu og þær eru oftar en ekki afar ólíkar. Þær svala óþreytandi forvitni minni um svo margt og hvort sem það eru miðaldabókmenntir, skáldsögur Jane Austen eða allt þar á milli þá tekst mér einhvern veginn alltaf að læra eitthvað nýtt. Þegar ég vel mér sjálf eitthvað að lesa er ég oftast fljót að finna mér góða skvísubók. Sem dæmi má nefna bækur Jenny Colgan og hef ég verið dyggur lesandi hennar síðan þær voru fyrst gefnar út í íslenskri þýðingu. Ég á afar skýra minningu af mér þegar ég var í keppnisferðalagi á leið til Gautaborgar og ég og nokkrar mömmur í ferðinni lásum Sumar í Litla bakaríinu við Strandgötu á leiðinni með rútu yfir Eyrarsundið. Endurminningar og ævisögur eru einnig bækur sem ég hef sóst í. Nú í sumar las ég bókina, Þar sem vegurinn endar eftir Hrafn Jökulsson og þótti hún afar góð, svo góð að ég vildi ekki að henni myndi ljúka. Að auki þykir mér gaman að lesa ljóðabækur en mætti þó vera duglegri við það.

Varstu dugleg að lesa sem barn?

Ég las ekki mikið sem barn en þó eru nokkrar bækur sem skjóta upp kollinum við upprifjun. Ég man eftir því þegar mamma gróf upp Öddubækurnar sem hún las þegar hún var lítil en mig minnir að ég hafi lesið fyrstu tvær eða þrjár. Pollýanna kom einnig við sögu í uppvexti mínum og ég man ekki betur en að það hafi einnig verið mömmu að þakka. Þegar ég svo fór á bókasafnið var ég spenntust fyrir því að fá myndasögur í láni, þá Strumpana og Ævintýri Tinna.

En hvernig myndir þú lýsa lestrarvenjum þínum?

Lestrarvenjur mínar eru skipulagðar og óreiðukenndar í senn. Ef svo má segja er ég alltaf með nokkrar bækur í gangi í einu en yfirleitt á mismunandi formi og jafnvel í ólíkum tilgangi. Þá er ég ávallt með eina bók eða fleiri sem ég les mér til ánægju eða fyrir skólann, ef ekki allt í einu. Einnig er ég alltaf með eina hljóðbók í eyrunum og ef til vill aðra á rafrænu formi. Til þess að þetta mjög svo góða kerfi virki verða bækurnar allar að vera mjög ólíkar eða tilheyra ólíkum bókmenntagreinum. Ef svo er ekki fer ég að slá þeim saman.

En hvað með uppáhalds höfunda?

Jenny Colgan er í miklu uppáhaldi en það er líklega hennar bókum að þakka að ég sé sá lestrarunnandi sem ég er í dag. Írski rithöfundurinn Sally Rooney er einnig ofarlega á lista þegar það kemur að uppáhalds höfundum. Hún skapar svo áhugarverðar persónur sem geta verið afar flóknar en eru fyrir vikið mjög áhugaverðar. Jane Austen er einnig höfundur í uppáhaldi hjá mér, ekki einungis vegna þess að ég hef lesið margar af bókum hennar og þótt gaman af, heldur vegna þess að mér hefur þótt afar gaman að stúdera bækur hennar. Síðasta haust tók ég námskeið sem heitir Jane Austen í samtímanum og var kennt af Öldu Björk Valdimarsdóttur. Þar var skáldkonan sjálf skoðuð ásamt áhrifum hennar á bókmenntagreinar eins og til dæmis skvísusögur, en eins og fyrr kom fram eru það bækur sem eru í miklu uppáhaldi hjá mér.

Hefur bóklestur einhvern tímann rænt þig svefni?

Bækur hafa sannarlega rænt mig svefni, það gerist afskaplega oft. Ég á það til að gleyma mér alveg í einhverri bók eða vilja klára hana áður en ég sofna. Ef ég á hundrað blaðsíður eftir af bók þegar ég fer upp í rúm á kvöldin legg ég hana ekki frá mér fyrr en ég er búin að lesa hana. Annars væri það eins og að ganga frá ókláruðu verki eða leggja frá sér prjónaskapinn í miðri umferð, það hreinlega gengur ekki.

Að lokum Ragnheiður, hvernig bækur myndir þú skrifa sjálf?

Sem rithöfundur myndi ég líklega skrifa fyrst og fremst skáldskap. Mig langar að gefa út ljóðabók, færa mig svo yfir í smásögur og síðan að skrifa skáldsögur og mögulega allt í bland einn daginn. Svo er aldrei að vita nema maður prófi að rita ævisögur enda er fátt meira spennandi en að heyra sögur fólks, það hefur oft svo margt merkilegt að segja.

__________________________________________________________

Umsjón með Lestrarhesti hefur Jón Özur Snorrason – jonozur@gmail.com.

Nýjar fréttir