11.1 C
Selfoss

Framkvæmdir við Búrfellsveg vel á veg komnar

Vinsælast

Framkvæmdum við uppbyggingu, breikkun og klæðingu Búrfellsvegar, frá Klausturhólum að Búrfelli kemur til með að ljúka í lok júlí. Verktaki er Suðurtak ehf. á Selfossi. Suðurtak átti lægsta boð í verkið, 179 milljónir króna, um 30 m.kr. undir áætluðum verktakakostnaði sem var 209 milljónir króna.

„Framkvæmdir hafa gengið mjög vel. Þær hófust í ágúst í fyrra en þar sem vorið var mjög kalt tafðist verkið um nokkrar vikur,“ segir Aron Bjarnason, umsjónarmaður verksins. Áætluð verklok voru 15. júní 2023 en verða í lok júlímánaðar.

Framkvæmdin nær yfir 4,25 km kafla sem nær frá slitlagsenda nærri Klausturhólum að slitlagsenda við Búrfell. Vegurinn var áður hefðbundinn malarvegur en framkvæmdin er fjármögnuð af tengivegafé.

Verkið fólst í styrkingu og klæðingu bundins slitlags ásamt lagfæringu núverandi vegar í 6 m breiðan veg með 5,8 m breiðu bundnu slitlagi og 2 x 10 cm breiðum malaröxlum. Endurnýja þurfti flest ræsi í veginum, færa nokkrar vegtengingar og á kafla hliðraðist vegurinn allur og er þar um alveg nýjan veg að ræða. Einnig voru girðingar færðar og lagaðar.

Umferð um Búrfellsveg er ekki þung. Meðalumferð á dag yfir árið er um 234 bílar. Meðalumferð á dag yfir sumarmánuðina er 288 bílar og meðalumferð á dag yfir vetrarmánuðina er 207 bílar. Hins vegar hefur umferð þungra bíla aukist nokkuð um veginn undanfarin ár.

Nýjar fréttir