1.1 C
Selfoss

Kassabílar fyrstir yfir nýju brúna

Vinsælast

Ný tvíbreið brú yfir Stóru-Laxá í Hreppum var opnuð formlega í gær, fimmtudaginn 13. júlí 2023. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar héldu stuttar ræður á brúnni áður en þau klipptu á borða til að marka hina formlegu opnun. Með þeim í því verkefni voru þeir Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Jón Bjarnason, oddviti Hrunamannahrepps. Stóra-Laxá liggur enda á mörkum sveitarfélaganna tveggja.

Hefð hefur verið fyrir því að ráðherra fari fyrstur yfir brýr eftir formlega opnun en í þetta sinn voru það börn af svæðinu sem fengu þann heiður en fararskjótarnir voru forláta kassabílar sem þeir Haraldur og Jón ýttu yfir brúna.

Nánar um verkefnið

Nýja brúin kemur í stað einbreiðrar 120 m langrar brúar frá árinu 1985. Umferðaröryggi eykst til muna með tilkomu brúarinnar. Samgöngur um Skeiða- og Hrunamannaveg verða mun greiðari enda hefur umferð aukist töluvert á þessu svæði síðustu ár, sér í lagi með tilkomu aukins ferðamannastraums.

Verkið sem Vegagerðin bauð út bar heitið; Skeiða- og Hrunamannavegur (30) um Stóru-Laxá. Í því fólst bygging brúar yfir Stóru-Laxá, gerð nýs vegkafla Skeiða- og Hrunamannavegar (30) beggja vegna, breikkun vegamóta við Skarðsveg og við Auðsholtsveg og gerð reiðstígs. Nýja brúin er til hliðar við gömlu brúna, tvíbreið, staðsteypt, eftirspennt bitabrú, 145 m löng í fjórum höfum. Lengd vegkafla er rúmlega 1000 m og lengd reiðstígs rúmir 300 m.

Sigurður Ingi Jóhannsson, Jón Bjarnason, Haraldur Þór Jónsson og Bergþóra Þorkelsdóttir. Mynd: Vegagerðin.

Umferðarþungi

Eitt af markmiðum framkvæmdanna var að fækka einbreiðum brúm á landinu, sér í lagi á umferðarmiklum vegum. Umferð um Skeiða- og Hrunamannaveg hefur þyngst töluvert síðasta áratug. Frá aldamótum hefur umferðin aukist, að jafnaði, um 3,7 % á ári. Heildaraukning frá aldamótum er 124%. Heildaraukning milli áranna 2010 og 2022 er 57%.

Aukið öryggi fyrir hestamenn

Stefnt er að því að gamla brúin fái nýtt hlutverk sem göngu- og reiðbrú. Brúna þarf að lagfæra fyrir þetta nýja hlutverk t.d. með uppsetningu nýrra handriða. Gamla brúin tengir saman reiðleiðir sitt hvoru megin við Stóru Laxá. Hún var byggð árið 1985, er 120 metrar að lengd og 4,8 metra breið.

Á mótum tveggja sveitarfélaga

Stóra-Laxá, oft kölluð Stóra-Laxá í Hreppum, er 90 kílómetra löng dragá. Hún á upptök sín í Grænavatni, Laxárdrögum sunnan Kerlingarfjalla og fellur á hreppamörkum Hrunamanna- og Skeiða- og Gnúpverjahrepps í Hvítá hjá bænum Iðu, ásamt Litlu-Laxá. Hún er all vatnsmikil, með 512 ferkílómetra vatnasvið.

Brúin yfir Stóru-Laxá er tenging milli sveitarfélaganna tveggja, Hrunamannahrepps, og Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Því þótti viðeigandi að oddvitar beggja sveitarfélaga, þeir Haraldur Þór Jónsson oddviti og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Jón Bjarnason oddviti Hrunamannahrepps, klipptu á borðann með innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar, til að marka formlega opnun nýju brúarinnar yfir Stóru-Laxá.

Nýjar fréttir