3.1 C
Selfoss

Met slegin í draumaveðri á fjölmennri Kótelettu

Vinsælast

Veðrið lék við hátíðargesti þegar grill- og tónlistarhátíðin Kótelettan var haldin í þrettánda skiptið á Selfossi um helgina. Hátíðin var, líkt og undanfarin ár, með þétta og góða dagskrá og má þá meðal annars nefna stóru grillsýninguna, styrktarlettur SKB (Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna), fjölbreytt fjölskyldudagskrá á sviðinu í Sigtúnsgarði og auðvitað tónlistarveisluna á sviðinu fyrir utan Hvíta húsið.

Í samtali við Dagskrána segir Einar Björnsson, hátíðarhaldari Kótelettunnar, að hátíðina hafi farið mjög vel fram og engin alvarlega mál komu upp. „Allir voru í góðum gír og bara eintóm hamingja á svæðinu,“ segir Einar.

Rúmlega 4000 einstaklingar sóttu tónlistarhátíðina í ár og er það fjölgun frá því árinu áður, en rétt undir 4000 sóttu hátíðina í fyrra. „Við stækkuðum svæðið talsvert til þessa að auka olbogarýmið og lokuðum á söluna á föstudeginum svo það færi vel um alla á svæðinu“ sagði Einar.

Met slegið á styrktarlettu SKB

Undirtektirnar fyrir styrktarlettunni í ár voru mjög góðar og samkvæmt óstaðfestum tölum voru seldar kótelettur fyrir á aðra milljón í ár, sem er stóraukning frá því árinu áður. Og ekki nóg með það, heldur ætla hátíðarhaldarar að tvöfalda þá tölu sem mun renna beint til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Heiðursgrillararnir á styrktarlettunni í ár voru líka ekki af verri endanum, en það voru þau Aron Can, Diljá og Magnús Kjartan sem sáu um að meðhöndla steikurnar, ásamt fleirum.

Gríðarlega öflug hátíð fyrir samfélagið

Fólksumferðin, og þá sérstaklega á laugardeginum, var gríðarlega mikil í bænum og fannst Einari ekki ólíklegt að það hafi verið í kringum 20.000 gestir í bænum. Mjög mikið var að gera hjá fyrirtækjum bæjarins alla helgina og þá sérstaklega á veitingarstöðunum en margir þeirra voru með metaðsókn þessa helgi. „Ég hef ekki fundið fyrir öðru en gríðarlegri ánægju eftir helgina og allir bíða spenntir eftir næstu hátíð,“ bætir Einar við í lokin.

Nýjar fréttir