2.3 C
Selfoss

Anna Margrét grillaði marineraða kjúklingavængi í djúsí-sósu

Vinsælast

Anna Margrét Magnúsdóttir, Grillmeistarinn 2023 í flokki áhugamanna, deilir með lesendum uppskriftinni af sigurréttinum.

Ég bar um helgina sigur úr býtum í keppni um Grillmeistarann 2023 í flokki áhugamanna, á grill- og tónlistarhátíðinni Kótelettunni á Selfossi. Ég hef mikinn áhuga á öllu matar og bakstursbrasi og hef haft hann lengi, er alin upp við það og beinlínis elska það. Ég geri til að mynda matseðil fyrir heimilið mitt hálfan mánuð fram í tímann og búin að gera í mörg, mörg ár. 

Vikumatseðill Önnu á Facebook

Fyrir nokkrum árum fór ég svo að setja matseðlana mína inni á Facebook-hóp sem ég bjó til og heitir „Vikumatseðill Önnu“. Þar set ég líka inn uppskriftir af réttunum sem ýmist eru frá mér eða öðrum. Þetta er bara gert til þess að leyfa öðrum að njóta, fá hugmyndir og hafa gaman. Þetta er ekki kostað af neinum fyrirtækjum eða framleiðendum. Nú fylgja mér tæplega 3000 manns og allir sem hafa áhuga eru velkomnir í hópinn.


 

Grillaði marineraða kjúklingavængi í djúsí-sósu

með soðnu „hvítlauks“ byggi og köldum hvítlauks og gráðostasósum.

Marinering á vængina

  • 2 bakkar kjúklingavængir. (Ég klippti þá niður í 3 hluta. Ég notaði ekki mjóa hlutann. Miðjuhlutann og keiluna notaði ég)
  • 1/2 smáttskorið rautt chilli
  • 2 dl teryaki sósa
  • 1 dl sojasósa
  • 1 dl hunang
  • 1 geiralaus smáttskorinn hvítlaukur
  • 1 msk. chilliflögur

Öllu blandað saman og vængirnir settir út í. Geymt í lokuðu íláti í ískáp í sólarhring (þarf eflaust ekki að vera svo langur tími).

Djúsí-sósan góða á vængina

  • 1,5 dl sweet chilli sósa
  • 1,5 dl bbq sósa
  • 3-4 dl teryaki sósa
  • 1- 1,5 dl sojasósa
  • 2 smáttskornir geiralausir hvítlaukar
  • 1,5 dl hunang
  • 4 msk. púðursykur
  • 1/2 tsk. mulinn svartur pipar
  • 1 msk. muldar þurrkaðar chilliflögur

Soðið saman við lágan hita í ca korter. Smakkið til. Athugið að sojasósan er mjög sölt. Betra að setja minna fyrst og bæta út í eftir smekk. Eins með chilliflögurnar. Þær stjórna alveg hversu spicy sósan verður. Vængirnir eru teknir upp úr marineringunni og þerraðir vel, annars skíðloga þeir á grillinu :).  Þeir eru grillaðir við miðlungshita í ca. 7 mín. á hvorri hlið, fer eftir þykkt. Um að gera að snúa þeim oft. Þeim er svo velt vel og vandlega upp úr djúsí sósunni, veiddir upp úr og raðað á disk. Sesamfræjum, niðursneiddum vorlauk og niðursneiddu rauðu chilli er stráð yfir.

Með þessu bar ég fram soðið bankabygg sem ég hafði blandað heimagerðu hvítlaukssmjöri saman við. Það toppaði ég með kasjúhnetum sem ég sauð upp úr djúsí-sósunni í svona 5 mín. Einnig gerði ég hvítlaukssósu og gráðostasósu og bar fram með þessu öllu (uppskriftir af þeim má sjá inn á Vikumatseðill Önnu á Face-book).

Anna Margrét Magnúsdóttir

Nýjar fréttir