3.4 C
Selfoss

Njálssaga í Þingvallagöngu

Vinsælast

Guðni Ágústsson ræddi Njálssögu í Þingvallagöngu síðasta fimmtudagskvöld. Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskipta- og menningarmálaráðherra flutti ávarp, Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona flutti Gunnarshólma og Karlakórinn Öðlingar sungu.

Guðni hóf erindi sitt með getgátu um hvar og hverjir skrifuðu Njálssögu. Hann vitnaði til Óskars Guðmundssonar rithöfundar sem hefur sett fram þá kenningu að hún sé skrifuð í Reykholti. Guðni sagði að sjaldan væri rætt um hversu Snorri Sturluson væri mikið tengdur Rang-árvallasýslu, alinn upp í Odda til tuttugu og þriggja ára aldurs af Jóni Loftssyni höfðingja Oddaverjanna og því Rangæingur og oddaverji að upplagi. Enn fremur hefði hans þriðja kona, Hallveig Ormsdóttir, verið Rangæingur, sonardóttir Jóns Loftssonar.

Snorri byggði upp menningarsetur í stíl Oddaverjanna í Reykholti og taldi Guðni líklegt að bæði Snorri og Hallveig hefðu oft á síðkvöldum sagt sögur úr Rangárþingi. Þar hefðu setið á skólabekk og ritstjórninni margir bestu sagnamenn þess tíma, svo sem bræðurnir Sturla og Ólafur hvítaskáld Þórðarsynir, bræðrasynir Snorra, og enn fremur sá maður sem tók við ritstjórninni eftir lát Snorra, Egill Sölmundarson, systursonur Snorra.

Guðni sagði að Njálssaga væri svo skemmtileg á köflum að þar væri um hreint uppistand að ræða eins og það er nefnt í nútímanum. Hins vegar lagði hann upp með í sínu erindi áhrif kvenna á atburðarásina og taldi sjö konur mestu hafa ráðið um stærstu örlög sögunnar. Þar kallaði hann fram Unni Gígju Marðar-dóttur, Gunnhildi Kóngamóður, Melkorku Mýrkjartansdóttur, Hallgerði Langbrók Höskuldsdóttur, Bergþóru Skarphéðinsdóttur, Þorgerði Glúmsdóttur og Hildigunni Starkaðardóttur sem hann taldi glæsilegustu persónu sögunnar. Samkomunni lauk á Lögbergi og um tvö hundruð gestir fylgdu sögumanni eftir í göngunni.

Öðlingarnir sungu Skarphéðinn í brennunni þegar Guðni hafði lýst hetjunni standandi við gaflaðið, glottandi við tönn, hergarpi Íslands. Og máttu Öðlingarnir syngja lagið tvisvar. Það gerði skúrir þetta kvöld en gestir voru vel búnir og um tíma var hörfað inn í Snorrastofu Þjóðgarðsins á Hakinu.

Nýjar fréttir