11.1 C
Selfoss

Matarboð með Rory Mcllroy og Jesú

Vinsælast

Sunnlendingarnir Skírnir Eiríksson og Heiðar Snær Bjarnason, sem útskrifuðust úr Menntaskólanum að Laugarvatni og Fjölbrautaskóla Suðurlands í maílok eiga það sameiginlegt að vera dúxar skóla sinna. Skírnir, sem útskrifaðist af náttúruvísindabraut í ML er búsettur í Gýgjarhólskoti í Bláskógabyggð með fjölskyldu sinni og vinnur þar að bændastörfum en Heiðar Snær, sem útskrifaðist af rafvirkjabraut í FSu býr á Selfossi með foreldrum sínum og tveimur yngri bræðrum. Heiðar er að sögn mikill golfari og vinnur sem golfvallarstarfsmaður hjá Golfklúbbi Selfoss í sumar.  Blaðamaður Dagskrárinnar hafði samband við þessa flottu stráka, sem eru jafn ólíkir og nótt og dagur, en eiga þennan glæsilega titil sameiginlegan. 

Hvernig er dæmigerður dagur í þínu lífi?

Skírnir: Núna í sumar er það þannig að ég sest í traktor og fer að gera það sem þarf. Reyndar þarf það ekki að vera á dráttarvél en það er best.

Heiðar: Núna í sumar vakna ég yfirleitt 6:30 til þess að mæta í vinnu 7:00 og vinn til 15:00. Eftir það fer ég annað hvort að æfa golf, og stundum þjálfa golf, til sirka 19:00. Eftir það er það mjög mismundandi. Sund, slökun, hitta vini eða bara hvað sem er. Þegar ég er að keppa þá fer yfirleitt stór hluti af deginum í það.

Hvað fannst þér skemmtilegast við að vera í framhaldsskóla?

Skírnir: Það sem mér fannst skemmtilegast við að vera í ML var að það var alltaf eitthvað til að gera og yfirleitt var það ekki heimanám. Heldur að setja upp leikrit, kór, íþróttir eða hvað sem er og ef það var ekki hægt þá stundina þá var bara að finna eitthvað að gera með vinum.

Heiðar: Félagslífið, vera í kringum fólk og vini. Skemmtilegasti dagurinn var Flóafár núna í vor.

Hvað gerði þig að dúx?

Skírnir: Hæsta meðaleinkunnin held ég held að það getur ekki verið neitt annað.

Heiðar: Rafvirkjabraut hentaði mér mjög vel þar sem ég hef mikinn áhuga á námsefninu en ásamt því myndi ég segja dugnaður.

Hvað tekur við eftir útskrift?

Skírnir: Æ hvað ég hef þurft að svara þessu oft en ég veit ekki, allavega pása frá námi í eitt ár og síðan miða ég á verkfræði eins og staðan er núna.

Heiðar: Í sumar er ég að vinna sem golfvallastarfsmaður hjá Golfklúbbi Selfoss ásamt því að vera keppa mikið í golfi. Í haust held ég síðan áfram í FSu til þess að klára stúdentsprófið í desember. Eftir það stefni ég á að komast á samning sem rafvirkjanemi. Haustið 2024 stefni ég á að komast út í háskóla í Bandaríkjunum

Ef þú værir fastur á eyðieyju og mættir hafa með þér þrjá hluti, hvaða hlutir væru það?

Skírnir: Lampa Alladdins, mat og einhver góð eiturlyf til öryggis ef lampinn virkar ekki þá mundi ég samt sjá einhverja anda.

Heiðar: Golfsett, vélbát og grill.

Hvað er það ævintýralegasta sem þú hefur gert?

Skírnir: Þar sem ég er ekki mikill ævintýramaður þá verður svarið að vera River Rafting og að hoppa fam af brú í Tungufljótið.

Heiðar: Ferðast með U18 ára landsliðinu í golfi til Búlgaríu til þess að keppa á EM landsliða 2022.

Hvað gerir þú til að slaka á?

Skírnir: Oftast sit ég og spila tölvuleiki, þó finnst mér líka frekar slakandi að vinna á Traktor

Heiðar: Fer í sund eða heitapottinn.

Ef þú gætir farið hvert sem er í heiminum, hvert myndir þú fara og hvað myndir þú gera þar?

Skírnir: Ef ég gæti lifað það af þá væri gaman að kíkja við á tunglinu en ég veit ekki hvað ég mundi gera þar, kannski hoppa.

Heiðar: Ég myndi fara til Dubai. Ég myndi spila golf og síðan skoða borgina, mjög margt hægt að gera þar.

Býrð þú yfir leyndum hæfileika?

Skírnir: Ég tala geimverumál.

Heiðar: Er búin að hugsa um þetta lengi en því miður finn ég engan leyndan hæfileika.

Ef þú mættir bjóða þremur þekktum einstaklingum, lífs eða liðnum, í matarboð, hverjum myndir þú bjóða?

Skírnir: Jesú, Guðmundur Einarsson og Geirfinnur Einarsson eða Winston Churchill, Jesú og Teodore Roosevelt.

Heiðar: Rory Mcllroy, Paul Walker og Pétur Jóhann.

Hvað er „go-to“ karaoke lagið þitt og afhverju?

Skírnir: Er ekki mikill söngfugl en ég held ég gæti tekið Monty Python – Always Look On The Bright Side Of Life eða Haddaway – What Is Love

Heiðar: Myndir með Skímó, ekta íslenskt, mér finnst það frábært lag og ég kann textann.

Ef þú gætir ferðast aftur í tímann og gefið yngri sjálfum þér ráð, hvað myndir þú segja?

Skírnir: Kannski „ekki borða gulan snjó“.

Heiðar: Myndi segja honum að slaka aðeins á.

Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

Skírnir: Það hef ég ekki hugmynd um en vona að ég sestur að einhvern staðar og farinn að vinna við eitthvað skemmtilegt. En oftast langar mig ekki að hugsa of langt fram í tímann það er nóg að stressa sig yfir næsta ári.

Heiðar: Annaðhvort sem atvinnukylfing í golfi eða að vinna eitthvað tengt rafmagni, þá með mitt eigið fyrirtæki eða hjá einhverju fyrirtæki. Verð líklega komin með fjölskyldu.

Nýjar fréttir