7.3 C
Selfoss

Orka náttúrunnar og landeldisfyrirtækið GeoSalmo undirrita raforkusamning

Vinsælast

Orka náttúrunnar (ON) og landeldisfyrirtækið GeoSalmo hafa undirritað raforkusamning um kaup á allt að 28 MW af raforku sem nýtt verður til landeldisstöðvar við Þorlákshöfn. Samningurinn fellur vel að þeirri sterku umhverfisvitund sem bæði fyrirtækin hafa að leiðarljósi.

Hágæðalax í lokuðu fiskeldiskerfi

GeoSalmo er fyrirtæki sem stefnir að uppbyggingu landeldis á laxi á Íslandi. Fyrsta verkefni félagsins er eldisstöð með framleiðslugetu allt að 24 þúsund tonn á ári en fyrsti áfangi þess nemur um 7.500 tonnum. Undirbúningur framkvæmda er langt kominn og hefur Skipulagsstofnun þegar gefið út álit sem staðfestir umhverfismatsskýrslu GeoSalmo.
Jens Þórðarson framkvæmdastjóri félagsins segir grundvallaatriði í undirbúningi félagsins vera að tryggja orku.

„ON er traustur og öflugur samstarfsaðili og verulega ánægjulegt að orkan í verkefnið komi úr sama sveitarfélagi. Umhverfisvæn matvælaframleiðsla er góð nýting á íslenskri orku, bæði efnahagslega og sem liður í að minnka kolefnisspor matvælaframleiðslu á heimsvísu,“ segir Jens.

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri ON, segir að með samningnum sé aukinn hluti orkuvinnslunnar nýttur nær upprunanum og til frekari uppbyggingar fjölbreytts atvinnulífs sem skapar bæði fjölda starfa og mikilvægar tekjur.

„Hlutverk Orku náttúrunnar er að framleiða og selja rafmagn á ábyrgan og umhverfisvænan hátt með sjálfbærni að leiðarljósi. Við höfum flýtt fyrir tækniþróun á sviði kolefnisförgunar sem leiðir til minna vistspors okkar starfsemi og erum frumkvöðlar í orkuskiptunum á Íslandi. Áform GeoSalmo falla vel að framtíðarsýn okkar um verðmæta viðskiptavini sem hafa skarpa sýn á umhverfið og nauðsynlega hringrás í hagkerfinu með hliðsjón af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.“

Nýjar fréttir