2.8 C
Selfoss

Stefnt að snjallsímalausum Sunnulækjarskóla í haust

Vinsælast

Foreldrar og forráðamenn barna í Sunnulækjarskóla fengu senda rafræna könnun fyrr í dag þar sem spurt var hvort foreldrar væru fylgjandi því að skólinn tæki upp símalausa stefnu frá og með hausti 2023. Boðið var upp á já eða nei valmöguleika og voru þátttakendur beðnir um að haka við hvaða skólastigi börn þeirra væru á.

Í upphaf könnunarinnar kom fram að margar fyrirspurnir hafi borist til skólastjórnenda síðustu vikur varðandi útfærslu á snjallasímalausum skóla. Þá vildu foreldrar helst fá svör við því hvort börnunum verði heimilt að hafa símann með í töskunni þar sem mörg þeirra fari ekki heim eftir skóla. „Svarið við því er að börnum er að sjálfsögðu heimilt að hafa með sér símtæki í töskunni á meðan þau eru ekki notuð á skólatíma. Önnur spurning sem hefur brunnið á mörgum foreldrum er hvort þau börn sem nýta símtækið sitt sem stoðtæki, t.d. börn með íslensku sem annað tungumál sé heimilt að nýta tækið sitt á skólatíma? Svarið við því er já. Í þeim tilfellum sem öpp í snjallsíma nýtast börnum við ákveðnar viðurkenndar þarfir mun skólinn vinna að því að nýta tiltekna tækni í samstarfi við foreldra.

Símtæki verður aðgengilegt í móttöku skólans öllum nemendum sem þurfa að hafa samband heim og hægt verður að koma skilaboðum til nemenda líkt verið hefur í gegnum skrifstofu skólans.

Neikvæð áhrif tækjanotkunar á börn

Í ræðu sinni við skólaslit þann 7 júní sl. hafði Hermann Örn Kristjánsson skólastjóri orð á því að könnunin yrði send út á næstunni, en sagði að ákvörðun sem þessi væri þó í höndum skólastjóra. Hann minntist á að foreldrar hefðu margir áhyggjur af félagslegri stöðu barna sinna, sem hefði tekið miklum breytingum samhliða hraðri tækniþróun undanfarinna ára, og sagðist sjálfur hafa miklar áhyggjur af þeim neikvæðu áhrifum sem tækjanotkun hefði á börnin okkar.

Símalausir grunnskólar í Silicon Valley

Máli sínu til stuðnings, minntist Hermann á að grunnskólar í Sílíkon-dalnum, við San-Fransisco flóa, séu símalausir. „Í borginni þar sem börn þeirra einstaklinga sem hafa lífsviðurværi sitt af því að sjá okkar börnum fyrir afþreyingu, eins og leikjum og samfélagsmiðlum í síma.“

Í því ljósi spyr Hermann hvort þar á bæ viti menn meira um raunverulega skaðsemi þessara miðla á félagsmótun og færni barna í samskiptum? „Í það minnsta veita þessir aðilar nógu mikið til að hleypa símtækjum ekki inn í skólastarfið þar,“ sagði Hermann að lokum.

Nýjar fréttir