0 C
Selfoss

Áform um græna atvinnuuppbyggingu í Sveitarfélaginu Ölfusi

Vinsælast

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Þekkingarsetrið Ölfus Cluster hafa nú skrifað undir samning um þróun grænnar atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu Ölfusi.

Markmið samningsins er er að undirbúa græna atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu Ölfusi í anda nýsköpunar, loftslagsmála og orkuskipta. M.a. verður unnið að því að koma á fót Grænum iðngarði í Ölfusi á um 250 hektara athafna- og iðnaðarsvæði fyrir utan Þorlákshöfn.

Fyrir liggur að Sveitarfélagið Ölfus og Ölfus Cluster hafa unnið einbeitt að styrkingu atvinnulífsins á svæðinu með áherslu á framleiðslu á umhverfisvænum matvælum svo sem landeldi á laxi. Samhliða hefur verið horft til uppbyggingar á annarri umhverfisvænni starfsemi svo sem grænum gagnaverum, framleiðslu á umhverfisvænum íblöndunarefnum til notkunar í byggingariðnaði, áburðarframleiðslu og margt fl. Lætur nærri að fyrirhugað sé atvinnuuppbygging fyrir tvö til þrjúhundruð milljarða á næstu 5 til 7 árum. Vilji er til þess að uppbygging falli sem best að.

„Aðkoma umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins að þessu verkefni er ómetanleg og verður vart metið til fjár. Með þessu tryggjum við ákveðna samfellu á milli þeirra áherslna sem við hér heima í héraði höfum á umhverfis- og loftslagsmál, í uppbyggingu verðmætasóknar og áherslna ríkisstjórnar. Þekkt er að sókn á forsendum loftslagsmála gerist ekki án aukinnar sóknar í græna orku og þar ætlum við okkur stóra hluti.  Við ætlum okkur að gera Ölfusið að Kísildal framleiðslu á umhverfisvænum matvælum og tengdri starfsemi. Frá því markmiði verður ekki hvikað og þessi aðkoma ráðuneytisins er ein af vörðunum á þeirri leið,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri.

 „Umhverfis- og loftslagsmál eru ekki einangrað verkefni ráðuneytisins. Til að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem við sem þjóð höfum sett okkur þarf víðtækt samstarf þar sem allir róa í sömu átt. Við viljum greiða fyrir grænni atvinnuuppbyggingu, fjárfestingum og verkefnum sem stuðla að því að yfirlýstum markmiðum stjórnvalda verði náð. Sveitarfélagið Ölfus og Ölfus Cluster hafa á seinustu árum sýnt ríkt frumkvæði í því sem snýr að framleiðslu á umhverfisvænum matvælum sem og annarri og sókn á forsendum ábyrgrar auðlindanýtingar. Þessum samningi sem við höfum nú undirritað er ætlað að styðja við áframhaldandi verðmætasköpun á forsendum umhverfis- og loftslagsmála.  Þannig verður velferð best varin til lengri og skemmri tíma,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Nýjar fréttir