7.8 C
Selfoss

Heiðar Snær dúx úr FSu

Vinsælast

Það var margt um manninn við vorútskrift nemenda FSu föstudaginn 26. maí. Enda 146 nemendur að ljúka bóknámi, listnámi og verknámi. Aldrei í sögu skólans hafa fleiri nemendur útskrifast í einu. Útskriftardagur er alltaf gleðidagur með föstu skipulagi þar sem ræður eru fluttar og hefðbundinn annáll starfseminnar, prófskírteini afhent og viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í námi og félagslífi, lög leikin og ljóð sungin, fullorðnir kennarar og annað starfsfólk kvatt eftir áralöng og gifturík störf.

Fjölbreytni skólastarfsins og framboð menntunar verður augljóst þegar listinn yfir námsbrautir er skoðaður og felast í einkunnarorðum skólans sem eru fjölbreytni, sköpun og upplýsing. Flestir útskrifast af opinni námslínu til stúdentsprófs eða 40 nemendur, 28 nemendur af húsasmíðabraut, 14 af rafvirkjabraut, 12 af náttúrufræðilínu, sérnámsbraut og vélvirkjabraut eða samtals 36 nemendur, 7 af félagsgreinalínu og 6 af listalínu, 6 samtals af hestalínu og íþróttalínu, og 6 í heildina af alþjóðalínu, viðskipta- og hagfræði línu og stúdentslínu eftir starfsnám.

Of langt yrði að telja þá alla upp sem hlutu viðurkenningar en DÚX skólans að þessu sinni varð Heiðar Snær Bjarnason sem hlaut auk þess viðurkenningu fyrir afburða námsárangur í rafvirkjun. Sérstök raungreinaviðurkenning Háskólans í Reykjavík kom í hlut Sigurðar Karls Sverrissonar og menntaverðlaun Háskóla Íslands hlaut Sigríður Fjóla Þórarinsdóttir. Viðurkenningu og fjárstyrk Hollvarðasamtaka skólans úr hendi 50 ára stúdentsins Veru Óskar Valgarðsdóttur hlutu Heiðar Snær Bjarnason, Dröfn Sveinsdóttir og Kristjana Ólafsdóttir. Tónlistin var flutt undir stjórn Stefáns Þorleifssonar kórstjóra þar sem hluti kórmeðlima söng vorljóð Jóhannesar úr Kötlum Vikivaka og tvær af efnilegri söngröddum skólans, Elísabet Björgvinsdóttir og Sigurður Matthías Sigurðsson sungu hvort sitt lagið af stakri prýði.

Í annál aðstoðarskólameistara Sigursveins Sigurðssonar kom fram að 1136 nemendur voru skráðir til náms í upphafi vorannar þar af 116 nemendur í garðyrkju og tengdum greinum að Reykjum í Ölfusi og 73 nemendur í fangelsum landsins. Skráning annálsins sem er sá 84. í sögu skólans miðar að því að draga fram í dagsljósið það mikilvæga skólastarf sem lúrir að baki hefðbundinni kennslu. Má þar nefna afburðaárangur nemenda í Gettu betur, gestakomur í skólann, vettvangsferðir nemenda, tónleikahald kórsins, opin hús nemenda, sýningahald á myndlist, samstarf við evrópska skóla og kennslufræðilega endurmenntun kennara.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir formaður skólanefndar FSu lagði sérstaklega út frá hugtakinu hugrekki í ræðu sinni og skoðaði það í fjölbreytilegu ljósi með nemendur að viðmiði. Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari bæði heilsaði og kvaddi nemendur og dró meðal annars fram mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna en með þau markmið hefur verið unnið í skólastarfi FSu á umliðnum árum. Hér er átt við þau markmið sem miða að því að auka jafnrétti allra, draga úr fátækt, tryggja mannréttindi, stöðva eyðingu lífvera, auka frið í heiminum og umhverfisvernd og stuðla að sjálfbærni svo nokkuð sé nefnt. Fulltrúi nýstúdenta Kristín Ósk Guðmundsdóttir talaði um hversu miklu máli áhugadrifnir og glaðir kennarar skipta í skólastarfi og minntist líka á reynslubolta í kennslu sem hafa kennt mörgum kynslóðum innan sömu fjölskyldu og uppskar bros á vörum og hlátur í röddum.

Á útskriftardegi fléttast saman menntun og menning, tilhlökkun og tregi, stolt yfir stöðnum einingum og árangri í námi, hugleiðing um horfin veg og hvað sé handan hæðarinnar en umfram allt ósk okkar allra um bjarta framtíð. Hefð er fyrir því að vitna til hins nafnlausa skólaskálds í lok hvers annáls og að þessu sinni lagði það út af dimmisjón kláranna sem birtust sinn síðasta kennsludag í órans lituðum samfestingi til að kveðja kennara sína og starfsfólk:

Reglurnar reyndust þeim strangar.
Það reikuðu um gangana fangar.
Í einlægri sátt
þeir útskrifast brátt
og aðhafast allt sem þá langar.

 

JÖZ

Nýjar fréttir