-0.5 C
Selfoss

Skrýtin stærðfræði hjá Árborg

Vinsælast

Mín saga byrjaði þegar ég réð mig til að vinna á frístundaheimilinu á Stokkseyri sl. haust. Vinnutími minn var ákveðin mánudaga, þriðjudaga og föstudaga frá kl 13 – 16. Sem sagt 9 klst. á viku. Á frístundaheimilinu á Stokkseyri hefur starfsfólk samið um fulla vinnustyttingu, þeas. að 36 klst. (40 klst. – 4 klst.) á viku teljist 100% vinna. Þrátt fyrir þetta var starfshlutfall mitt „reiknað“ sem 9 / 40 = 0,225 eða 22,5%. Ég er búin að vera utan vinnumarkaðarins nú um nokkurra ára skeið, svo ég fór ekki að pæla í því fyrr en eftir nokkra mánuði að þetta væri nú eitthvað skrítin stærðfræði. Ég byrjaði á því að senda tölvupóst til aðilans sem réð mig og ákvað vinnutíman, þar sem ég bað um að þetta væri leiðrétt. Svarið við því var eftirfarandi:

Varðandi starfshlutfallið, ef þú velur að fara uppí 23,75% þá þýðir það engin pása frá börnum. Þá þarftu að taka fullan þátt í öllum kaffitímum getur því miður ekki verið inni á meðan að börnin borða, því þegar þú ert ekki með börnunum, heldur situr og drekkur kaffi eða annað á meðan td börnin eru í mat, það flokkast sem kaffitími, þar sem það er ákveðin pása frá börnunum.

Ef þú velur að vera í 22,5% þá áttu rétt á 7 mínútum á dag í pásu og gætir notað það þegar börnin eru að borða, eða mætt 7 mín yfir 13 og mætt í raun eiginlega bara beint inní skóla að taka á móti börnunum. Þyrftum að finna útúr því þá í sameiningu.

Það er reyndar mín skoðun að þetta dæmi þurfi að komast í kennsubækur sem frábært sýnidæmi um gaslýsingar, en það er önnur saga!

En, semsagt, mér var boðið að skrifa undir að starfshlutfall mitt yrði leiðrétt og gert að 23,75%. Ég sagðist nú ekki samþykkja það, því að mitt starfshlutfall væri nákvæmlega 9 / 36 = 1 / 4 = 0,25 sem er einmitt 25%. Á það var ekki fallist en 1. maí sl. voru launin leiðrétt miðað við 23,75%. Ég hélt áfram að jagast í mannauðsstjóra Árborgar og vildi fá nákvæma útlistun á því hvaða útreikningur lægi á bak við þessa tölu.

10. maí sl. sagði téður mannauðsstjóri í tölvupósti til mín „Starfshlutfallið þitt verður 24,7%, það verður leiðrétt með næstu launakeyrslu.” Með þessum sama tölvupósti fékk ég sendan „útreikningin” eins og hann hafði verið útskýrður fyrir stéttarfélaginu mínu:

Starfsmaður er í 22,5% starfshlutfalli (9 klst á viku / 40 klst á viku).

Starfsmaður á rétt á 35 mín á dag í kaffitíma m.v. 100% starfshlutfall. Starfsmaður fær því 0,65 klst á viku ofaná starfshlutfallið.

Starfsmaður á rétt á 13 mín í vinnutímastyttingu á dag k.v. 100% starfshlutfall. Starfsmaður fær því 0,24 klst á viku ofaná starfshlutfallið.

Starfsmaður fær því 0,9 klst á viku ofaná starfshlutfallið sitt þar sem að hann getur ekki tekið út vinnutímastyttinguna í fríi.

Starfsmaður er í 22,5% starfshlutfalli og fær ofaná það 2,3%  sem gerir 24,7% starfshlutfall.

Ég get sko ekki byrjað að pæla í hvaða kennslubækur þessi stærðfræði öll þyrfti að komast í (hin sagan).

En sem sagt 1. júní sl. voru launin aftur leiðrétt miðað við 24,7%. Og enn er helvítis kerlingin ekki sátt! Svo þann dag sendi ég enn tölvupóst á mannauðsstjórann þar sem ég fór þess á leit að launin yrðu leiðrétt þegar í stað. Daginn eftir sendi mannauðsstjórinn tölvupóst þar sem segir: „Launin verða leiðrétt í leiðréttingarútborguninni sem greidd verður út í næstu viku.” Ég bað hann um að staðfesta við mig hvernig sú leiðrétting liti út en hef ekki verið virt svars.

Það hvarflar ekki að mér að það sé neinn hjá Árborg að leggja mig í eitthvert einelti, né að ég sé eini starfsmaðurinn þar sem þessari bull stærðfræði er beitt við útreikning hjá sveitarfélaginu, hins vegar held ég að sveitarfélagið sé búið að telja bæði starfsmönnum sínum og starfsmönnum stéttarfélaganna að þessi útreikningur sé svo flókinn og erfiður að það sé bara alls ekki á þeirra færi að reikna neitt af þessu út og í því skjóli skálka þeir.

Ég hef spurt starfsfólk hjá Árborg sem er í hutastarfi hvaða starfshlutfalli það sé í og hve margar stundir það vinnur á viku og gerði þessa töflu miðað við það. Þar er ég nú bara að miða við 470 þús kr. mánaðarlaun mv 100% vinnu sem mér rennur í grun að sé frekar lág tala en þaðan hef ég tvö fyrstu dæmin í töflunni. Síðasta dæmið er mitt eigið tilfelli þegar þeir eru búnir að leiðrétta uppí 24,7% (hlutfallið óx sem sagt: 22,5% – 23,75% – 24,7%).

Ef miðað er við að samið hafi verið um fulla vinnustyttingu á viðkomandi vinnustað og mánaðarlaun fyrir 100% vinnu sé 470,000 kr. þá má sjá á eftirfarandi útreikningi að um talsverðar upphæðir er að ræða
Ef unnar vinnust. eru

6 klst.á dag, 5 daga vikunnar er vinnuvikan 30 klst.

Þá er starfshlutf.

30 / 36 = 83,33%

Ef sveitarfél Árborg “úthlutar” starfshlutfalli sem 80%
þá lítur útreikningur á mánaðarlaunum svona út
83,33% * 470000 = 391,651 kr 80% *

470000 =

376,000 kr Mism. er 15,651 kr. á mán. sem vantar uppá
Ef unnar vinnust. eru

4 ½ klst.á dag, 5 daga vikunnar er vinnuvikan 17 ½ klst.

Þá er starfshlutf.

17,5 / 36 = 48,61%

Ef sveitarfél Árborg “úthlutar” starfshlutfalli sem 46%
þá lítur útreikningur á mánaðarlaunum svona út
48,61% * 470000 = 228,472 kr. 46% *

470000 =

216,200 kr. Mism. er 12,272 kr. á mán. sem vantar uppá
Ef unnar vinnust. eru

3 klst.á dag, 3 daga vikunnar er vinnuvikan 9 klst.

Þá er starfshlutf.

9 / 36 = 25%

Ef sveitarfél Árborg “úthlutar” starfshlutfalli sem 24,7%
þá lítur útreikningur á mánaðarlaunum svona út
25% *

470000 =

117,500 kr 24,7% *

470000 =

116,090 kr Mism. er 1,410 kr. á mán. sem vantar uppá

Verst er að það virðist ekki vera mikla hjálp að fá hjá stéttarfélögunum, en mér finnst bara bráðnauðsynlegt að þessar prósentur séu endurreiknaðar fyrir alla, allavegana alla sem ekki eru sáttir við að gefa eftir tugi þúsunda króna á mánuði hverjum til sveitarfélagsins.

Einnig þætti mér fróðlegt að fá svör við eftirfarandi spurningum:

  1. Hversu margir vinnustaðir/einingar með starfsmönnum á launum hjá Árborg hafa samið um fulla vinnustyttingu, þe vinnuvikan er 36 klst fyrir 100% vinnu?
  2. Hversu margir vinnustaðir/einingar með starfsmönnum á launum hjá Árborg hafa ekki samið um fulla vinnustyttingu, þe vinnuvikan er 40 klst eða undir 40 klst en yfir 36 klst fyrir 100% vinnu?
  3. Hversu margir starfsmenn sveitarfélagsins eru í 100% starfi þar sem samið hefur verið um fulla vinnustyttingu?
  4. Hversu margir starfsmenn sveitarfélagsins eru í hlutastarfi þar sem samið hefur verið um fulla vinnustyttingu?
  5. Hversu margir starfsmenn sveitarfélagsins eru í 100% starfi þar sem ekki hefur verið samið um fulla vinnustyttingu?
  6. Hversu margir starfsmenn sveitarfélagsins eru í hlutastarfi þar sem ekki hefur verið samið um fulla vinnustyttingu?

Gyða Atladóttir

Random Image

Nýjar fréttir