-0.5 C
Selfoss

Suðri á leiðinni á Heimsleika Special Olympics

Vinsælast

Special Olympics samtökin voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni í Bandaríkjunum árið 1968 og hafa meðlimir fjölskyldunnar verið við stjórnvölinn alla tíð. Markmið leikanna í upphafi var að bjóða upp á íþróttatilboð fyrir fólk með þroskahömlun en undanfarin ár hafa viðmið rýmkast. Eitt af markmiðum samtakanna er að efla samspil fatlaðra og ófatlaðra (unified sport) í æfingum og keppni. Með því hafa tækifæri skapast fyrir enn stærri hóp iðkenda gegnum Special Olympics samtökin. Lykilatriði á þessum leikum er að jafningjar takist á og að allir eigi sömu möguleika á að vinna til verðlauna. Einstaklingar fá tækifæri til að sýna styrkleika og njóta sín á eigin verðleikum.

Ástæða er til að vekja athygli á sýn og gildi Special Olympics samtakanna. Tilgangur þeirra er að nota íþróttastarf til að byggja upp sterka og sjálfstæða einstaklinga á vettvangi þar sem allir fá sömu tækifæri til að láta ljós sitt skína. Þetta er allt annað en hið hefðbundna keppnisumhverfi þar sem aðeins þau bestu fá verðlaun.

17.– 25. júní fara Heimsleikar Special Olympics fram í Berlín. Keppendur eru um 7000 og keppt er í 29 íþróttagreinum. Á Special Olympics leikum er mikið lagt upp úr félagslegum tengslum og meðal annars fara allir keppendur í vinabæjaheimsóknir viku fyrir leikana. Vinabær Íslands að þessu sinni er Kempten. Special Olympics leikar eru ólíkir Paralympics (ólympíumóti fatlaðra) að því leyti að allir eiga möguleika á að taka þátt. Við val á keppendum er ekki miðað við besta árangur heldur lagt mat á framfarir, frammistöðu, mætingu og félagslega hegðun. Því eiga allir kost á að vera valdir sem leggja sig fram á æfingum.

Á Íslandi fer val á keppendum þannig fram að félög tilnefna einstaklinga í ákveðna keppnisgrein og tölva velur af handahófi þá heppnu. 30 íslenskir keppendur taka þátt í leikunum í Berlín í 10 íþróttagreinum.

Frá íþróttafélaginu Suðra fara fimm keppendur og tveir þjálfarar. Keppendur eru: Birgir Örn Viðarsson boccia, Telma Þöll Þorbjörnsdóttir golf, María Sigurjónsdóttir og Sigurjón Ægir Ólafsson lyftingar, Katla Sif Ægisdóttir sund. Þjálfarar eru: Ófeigur Ágúst Leifsson boccia og Örvar Arnarson lyftingar.

Þeir sem hafa tekið þátt í Special Olympics leikum eru sammála um að helsti ávinningurinn sé stóraukið sjálfstraust og ný vinatengsl. Þessi hressi hópur frá Íþróttafélaginu Suðra mun án efa koma heim með slíkan ávinning í farteskinu.

Nánari upplýsingar um leikana er hægt að fá á www.hvatisport.is.

Þorbjörg Vilhjálmsdóttir

Nýjar fréttir