8.9 C
Selfoss

„Sveitarfélögunum finnst það vera í lagi að mismuna starfsfólki sínu í launum“

Vinsælast

Stéttarfélagið FOSS efndi til mótmæla í morgunsárið fyrir utan ráðhús Árborgar, en BSRB stendur nú í kjaradeilum við Samband íslenskra sveitarfélaga um bætt kjör félagsmanna. En einnig fóru félagsmenn og mótmæltu í Hveragerði í dag.

Verkfallsaðgerðir félagsmanna FOSS standa nú yfir í Sveitarfélaginu Árborg, Hveragerði og Sveitarfélaginu Ölfusi. En verkföllin hafa áhrif á leikskóla, grunnskóla og hafnarstarfsmenn. „Við finnum fyrir miklum stuðningi. Stjórnendur styðja mjög vel við starfsmenn sína og eru mikið að passa sig að allt fari rétt fram í þessum verkfallsaðgerðum,“ segir Árný Erla Bjarnadóttir, formaður FOSS stéttarfélags.

Vilja fá sömu laun fyrir sömu störf

„Krafa BSRB-félaganna er að fá sömu laun fyrir sömu störf. Um áramótin myndaðist mismunur á milli félagsfólks BSRB og SGS en þetta er starfsfólk sem vinnur öxl í öxl eins og t.d. á leikskólum, grunnskólum, íþróttamannvirkjum, félagsþjónustu o.fl. Þessi mismunur er um 130.000 krónur að meðaltali fyrir janúar, febrúar og mars,“ segir Árný Erla Bjarnadóttir, formaður FOSS stéttafélags í almannaþjónustu.

„Samninganefnd sveitarfélaga segir að hún hafi ekki umboð sveitarfélaganna til að mæta þessari kröfu. Af þessu má draga þá ályktun að sveitarfélögunum finnist það vera í lagi að mismuna starfsfólki sínu í launum þrátt fyrir að það starfi hlið við hlið í sömu störfum.
Samninganefndin segir að BSRB hafi gert mistök og þetta séu afleiðingarnar. Mér finnst mjög alvarlegt ef samninganefnd sveitarfélaga hefur áttað sig á þessum afleiðingum strax að þau skrifi undir svona samninga fyrir hönd sveitarfélaga landsins,“ bætir Árný við.

Árný hefur vakið athygli sveitarstjórnenda á félagssvæði FOSS varðandi þennan mismunun og hefur það komið þeim á óvart. „Ég hvet stjórnendur sveitarfélaga að standa upp fyrir sitt fólk og gefa samninganefndinni umboð til að leiðrétta þetta,“ segir Árný í lokin.

Nýjar fréttir