5.6 C
Selfoss

Nýr hluti Suðurlandsvegar vígður

Vinsælast

Margt var um manninn þegar nýr hluti Suðurlandsvegar var vígður í morgun við hátíðlega athöfn í úrhellisskúr. Það stytti þó upp og sólin lét sjá sig í skamma stund á meðan Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar og Sigurður Ingi Jóhannesson innviðaráðherra klipptu á borðann.

„Þetta er gríðarlega mikil samgöngubót og öryggi fyrir íbúa og alla sem fara hérna um. Svo er þetta bylting fyrir þá sem búa hérna í Ölfusinu og nærumhverfi að geta ferðast hér um á öruggan hátt. Fyrir þá sem eru að ferðast hérna í gegn þá er auðvitað frábært að losna við rúmlega tuttugu innkeyrslur inn á veginn og að vera komin með svona breiðan og öruggan veg. Nú tekur við að klára að tengja sveitavegina og miðað við hraðann og dugnaðinn í verktökunum þá hef ég trú á því að það klárist fyrr en seinna,“ segir Sigurður Ingi í samtali við Dagskrána.

„Þetta er gleðidagur, við erum himinlifandi að vera að klára þetta. Við erum að vinna í Suðurlandsveginum á fleiri stöðum, við erum að fara núna í Ölfusárbrúna og svo er verið að vinna í þeim áföngum sem eru nær Reykjavík. Suðurlandsvegurinn hefur verið og var sérstaklega í upphafi aldarinnar býsna hættulegur þannig að það er alveg geysilega gleðilegt að geta tekið svona skref,“ segir Bergþóra í samtali við Dagskrána.

Þau Bergþóra og Sigurður Ingi fengu svo far hjá Sólmundi Sigurðarsyni um nýja veginn í glæsilegum, 64 ára gömlum Benz-180 og fullkomnuðu þannig vígsluna.

Meðfylgjandi myndir tók Helga Guðrún Lárusdóttir, blaðamaður Dagskrárinnar.

Nýjar fréttir