-0.5 C
Selfoss

Fertugur Fjölbrautaskólakór

Vinsælast

Sunnudaginn 30. apríl síðastliðinn hélt Kór Fjölbrautaskóla Suðurlands hátíðlega afmælistónleika í Selfosskirkju, en á þessu ári eru 40 ár síðan kórinn var stofnaður. Í upphafskynningu kórfélaga kom fram að Heimir Pálsson, fyrsti skólameistari skólans, hafi orðið við ósk nokkurra nemenda vorið 1983 um að stofnaður yrði kór við skólann. Sjálfur hefur hann sagt frá því í ræðu og riti að hann hafi þá farið fram á það við nokkra karlkyns kennara að þeir mættu á kóræfingar – en til að byrja með sóttu ekki margir strákar í kórstarfið. Það breyttist þó fljótlega, en lengi vel voru nokkrir kennarar virkir kórmeðlimir.

Kórinn starfaði svo sleitulaust í meira en 30 ár, lengst af undir stjórn Jóns Inga Sigurmundssonar. En síðan varð hlé á kórsöng í FSu um nokkurra ára skeið. Það var svo síðastliðið haust að sagan endurtók sig. Nemendur fóru á fund skólameistara og óskuðu eftir stuðningi við að endurvekja kórinn. Það tókst og nú æfa um 30 nemendur seinnipartinn á þriðjudögum undir stjórn Stefáns Þorleifssonar sem fenginn var til að stjórna kórnum.

Dagskráin þetta sunnudagskvöld var afar fjölbreytt en flest lögin voru í léttari kantinum enda heil hljómsveit sem sá um undirleikinn. Hana skipuðu Sveinn Pálsson á gítar, Róbert Dan á bassa og Páll Sveinsson á trommur og svo kórstjórinn sjálfur sem lék undir á píanó. Flutt voru lög eftir íslenska höfunda á borð við Valgeir Guðjónsson, Bubba Morthens, Ásgeir Trausta, Jón Ólafsson og Gunnar Þórðarson. Til gamans má geta þess að kórinn flutti lagið Cum decore án undirleiks, en það var um árabil nokkurs konar einkennislag kórsins og var ætíð sungið þegar kórinn gekk í salinn á tónleikum og við brautskráningar. Fyrrum kórfélagar voru beðnir um að taka undir og mátti heyra einstaka ,,gamla“ rödd detta inn í samhljóminn í kirkjunni.

Það er skemmst frá því að segja að flutningur kórsins var ákaflega fágaður og fallegur og augljóst að söngfólkið naut þessa að flytja tónlistina. Óhætt er að fullyrða að miklar framfarir hafa orðið á þessum eina vetri og sjálfstraust og sönggleðin vaxið í hópnum. Gestasöngvarar á tónleikunum voru félagar í kórnum Sunnlenskar raddir, sem tók nokkur lög undir stjórn Stefáns. Þess má til gamans geta að margir félagar í þeim kór eru einmitt fyrrum nemendur í FSu. Þá er ótalið það uppbrot á tónleikunum sem einna mesta athygli vakti, en það voru einsöngvarar úr hópi kórfélaga í Kór FSu. Þau Nyx Levi Abranja Jónasson, Emilía Ýr Kjartansdóttir, Hugrún Tinna Róbertsdóttir, Sigurður Matthías Sigurðarson og Elísabet Björgvinsdóttir fluttu hvert sitt lagið við undirleikar hljómsveitarinnar. Þau hafa mismikla reynslu af einsöng en stóðu sig öll frábærlega og fengu mikil viðbrögð áheyrenda að flutningi loknum.

Þetta voru glæsilegir afmælistónleikar hjá kór FSu sem gáfu fyrirheit um eitthvað ennþá meira og stærra í framtíðinni. Takk fyrir tónleikana og gangi ykkur vel á tónlistarbrautinni.

Sigþrúður Harðardóttir

Random Image

Nýjar fréttir