11.7 C
Selfoss

Grillað lamba fille með Hasselback kartöflum og piparostasveppasósu

Vinsælast

Björgvin Jóhannesson er sunnlenski matgæðingur vikunnar.

Ég þakka meistarakokknum og golfvini mínum, Jóni Steindóri Sveinssyni kærlega fyrir tilnefninguna. Eins og hann kom inn á í síðasta blaði er hann einstaklega hrifinn af slátrinu hjá mér og kallaði eftir að ég deildi leyniuppskriftinni með ykkur. Það er ekki að fara að gerast núna, enda vor í lofti, úrslitakeppnin í körfubolta að ná hámarki, Eurovision partýin framundan og tímabært að fíra upp í grillunum. Og þá veljum við að sjálfsögðu það allra besta á grillið, íslenska lambakjötið.

Grillað lamba fille með Hasselback kartöflum og piparostasveppasósu:

Við veljum okkur 4-5 fille með fituröndinni á. Maður er kannski ekki alltaf nógu duglegur að plana fram í tímann en best finnst mér að láta fille-ið standa í ísskápnum í nokkra daga áður en kemur að veislunni og leyfa því að meyrna vel. Kvöldið áður tek ég kjötið út og fitusnyrti aðeins, fjarlægi sinar ef einhverjar eru og sker tíglamynstur í fituröndina.

Svo krydda ég bitana með hvítlaukspipar, salti og pipar og smá af Bezt á lambið kryddinu. Leyfi kjötinu svo að liggja í ólífuolíu yfir nóttina en tek það út a.m.k tveimur tímum áður en það fer á grillið.

Grillið þarf að vera vel heitt og byrja ég á að snúa fituhliðinni niður og grilla í um 5-7 mínútur og svo 3-4 mín á hinni hliðinni. Fituröndin gefur kjötinu frábært bragð og við viljum ná henni stökkri en það þarf að gæta þess vel að hún brenni ekki. Það er því mikil ábyrgðarstaða að vakta grillið.
Þegar grillun er lokið er fínt að láta kjötið standa í 4-5 mínútur áður en það er skorið.

Hasselback kartöflur:
6-8 stórar kartöflur
100 gr. smjör
2 msk. ólífuolía
Salt

Hitið bakarofn í 220 gráður. Djúpar raufar skornar í kartöflurnar með nokkra millimetra millibili.
Smjör og olía brædd saman í potti. Kartöflum raðað í ofnskúffu og smjörinu og olíunni hellt yfir kartöflurnar. Snúið kartöflunum nokkrum sinnum og veltið þeim þannig vel upp úr smjörinu. Stráið saltinu yfir kartöflurnar. Setjið í ofn og bakið í ca. 50 – 60 mínútur þar til þær eru gullinbrúnar. Þegar kartöflurnar hafa opnað sig aðeins er gott að bæta við smá smjörklípu ofan á hverja kartöflu.

Piparostasveppasósa:
½ laukur
200 g sneiddir sveppir
Smjör og  Ólífuolía
1 og ½  piparostur
1 l matreiðslurjómi
1 nautakraftur

Skerið laukinn mjög fínt og sveppina í sneiðar. Laukurinn er mýktur í potti í blöndu af smjöri og ólífuolíu og sveppunum síðan bætt við. Steikt í smástund og svo er rjóma, piparosti og nautakraftsteningi bætt í pottinn. Sjóðið við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Kryddið með salti og pipar og verið dugleg að smakka sósuna til.

Með þessu öllu finnst mér tilvalið að bjóða upp á ferska íslenska salatblöndu með fetaosti.
Verði ykkur að góðu!

Ég ætla að skora á skólastjórann, tenórinn og stórvin minn, Hermann Örn Kristjánsson að koma með næstu uppskrift. Ef hann eldar jafnvel og hann syngur eigið þið von á góðu.

Nýjar fréttir