-1.6 C
Selfoss

Kvenfélag Eyrarbakka 135 ára

Vinsælast

Á Eyrarbakka hefur lengi verið þétt samfélag. Árið 1888 þann 25. apríl, þegar Kvenfélag Eyrarbakka var stofnað, hafði samfélagið verið sterk stoð þeirra sem  þar bjuggu og störfuðu. Sjórinn var það sem gaf, en hann tók einnig sinn toll. Eftir stóðu ekkjurnar með börn sem höfðu hvorki föður né fyrivinnu. Konurnar í þorpinu aðstoðuðu þær sem eftir stóðu einar.

Á þessum tíma voru engir opinberir styrkir eða annað sem kom til hjálpar, eingöngu samhjálp hinna í þorpinu. Eins var ef sjúkdómar herjuðu á, eða annað það sem hamlaði að sækja björg í bú, þá var það samhjálpin sem að gat fleytt fólki áfram í daglegu striti.

Það er við þessar aðstæður sem að sextán konur stofnuðu Kvenfélag Eyrarbakka undir stjórn Eugenia Nielsen. Þessi hugsjón er enn til staðar í störfum Kvenfélags Eyrarbakka, en þó á nótum nútímans, hugsun um hag kvenna og barna. Konur þétta raðirnar og vinna saman, safna peningum í þágu samfélagsins og styrkja í nærsamfélaginu, þar sem að þörfin er. Einnig þar sem kemur öllum til góða, líkt og líknarfélög vinna. Sumt er það sem segja má frá, annað fer hljótt. Þeir einir sem njóta aðstoðar vita.

Í okkar síunga félagi er þó oftast glatt á hjalla, hvort sem konurnar vinna saman að margvíslegum verkefnum eða lyfta sér á kreik.

Fundirnir eru kærleiksríkir og gefandi. Þar er grasrótin með trygga stjórn og konurnar vinna í ýmsum nefndum. Samhugurinn sem  í upphafi var ríkjandi, ríkir enn, þó kjör fólks hafi með ýmsum hætti breyst.

Minnug þess að „mönnunum svipar saman“, heldur þetta aldna og góða félag áfram á sama grunni, líknar og samhjálpar.

Kristín Eiríksdóttir
Formaður Kvenfélags Eyrarbakka

Nýjar fréttir