Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, og Marinó Þórisson, framkvæmdastjóri SV3, ehf hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um fjölgun leiguíbúða í Vík.
Samkomulagið miðar að byggingu nýs fjölbýlishúss við Sléttuveg 3a þar sem byggðar verði íbúðir sem seldar verði til leigufélaga sem leigja á almennum markaði. Gert er ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist á þessu ári og að íbúðir verði tilbúnar um mitt ár 2024.
„Við vonumst til þess að þetta sé upphafið að því að leigumarkaður verði til í Vík. Eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði hefur verið gríðarlega mikil síðustu ár og fasteignaverð hækkað ört í takt. Atvinnurekendur hafa keppst um að kaupa íbúðarhúsnæði til þess að tryggja sína starfsemi og þar hefur sveitarfélagið líka þurft að stíga inn og kaupa íbúðir til að geta ráðið nýtt starfsfólk. Með innkomu íbúða í gegnum óhagnaðardrifin leigufélög eins og verður í þessu verkefni þá standa vonir til þess að hægt sé að vinna í þá átt að íbúar búi við aukið búsetusjálfstæði. Sveitarfélagið hefur tekið þátt í ýmsum íbúðaverkefnum á síðustu árum og gerir ráð fyrir að hægt verði að halda áfram uppbyggingu til framtíðar í nýju aðalskipulagi,“ segir Einar Freyr í samtali við Dfs.is