0 C
Selfoss

Aukin þjónusta við nemendur FSU

Vinsælast

Halla Dröfn Jónsdóttir félagsráðgjafi hefur hafið störf við Fjölbrautaskóla Suðurlands en hún mun sinna starfi skólafélagsráðgjafa. Halla Dröfn hefur lengi starfað innan velferðarþjónustu með börnum og fjölskyldum þeirra en sú reynsla hennar mun nýtast vel í þessu starfi.

Hlutverk félagsráðgjafa er fyrst og fremst að vera til staðar fyrir nemendur sem þurfa ráðgjöf og/eða stuðning við hinar ýmsu áskoranir lífsins. Halla mun einnig sinna hlutverki tengiliðs sem kveðið er á um í nýjum farsældarlögum. Með eflingu nemendaþjónustu vill skólinn tryggja samþætta þjónustu í þágu ungmenna og efla forvarnarstarf og snemmtækan stuðning í nærumhverfi nemenda.

Félagsráðgjafi getur stutt nemendur sem glíma við vanlíðan eða persónulegar áskoranir af einhverju tagi og vísað á leiðir innan heilbrigðiskerfisins sé þess þörf. Félagsráðgjafi býður einnig upp á ráðgjöf til foreldra/forráðafólks sem tengist hagsmunum og líðan ungmenna. Áherslur skólafélagsráðgjafa ná yfir allt það í lífi barna sem hefur truflandi áhrif á menntun þeirra og lífsgæði en verksvið skólafélagsráðgjafa er fjölbreytt og leitast þeir við að hafa heildarsýn yfir aðstæður.

Hægt er að senda póst á netfangið halladrofn@fsu.is eða hringja í númerið 480-8100 til þess að bóka viðtalstíma hjá félagsráðgjafa skólans. Einnig er hægt að fara á slóðina: Félagsráðgjafi (office365.com) og panta tíma rafrænt.

Aðsetur félagsráðgjafa eru á þriðju hæð í Odda, aðalbyggingu skólans, í stofu 309. Félagsráðgjafi er til viðtals á þriðjudögum og miðvikudögum frá 9:00-16:00.

hdj/jöz

Nýjar fréttir