3 C
Selfoss

Kósý vorkvöld í Miðbæ Selfoss

Vinsælast

Á morgun, miðvikudag, verður slegið til kósýkvölds í miðbænum á Selfossi. Er þetta í annað sinn sem slíkt kvöld er haldið, en á því fyrsta, sem haldið var í nóvember, lukkaðist kvöldið gífurlega vel og var því ákveðið að endurtaka leikinn á vordögum.

„Við fáum frábæra gesti í heimsókn í miðbæinn og verða óvæntar uppákomur fram eftir kvöldi. Verslanir og veitingastaðir verða með opið til 22 og bjóða upp á veglega afslætti og uppákomur,“ segir Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir, verkefnastjóri hjá Sigtún þróunarfélagi.

BMX Bros ætla að sýna listir sínar á Brúartorgi kl. 17:30 auk þess sem þeir verða með þrautabraut fyrir krakkana að spreyta sig.

Elísa Dagmar færir gestum og gangandi ljúfa tóna á Brúartorgi

Jórukórinn verður á svæðinu og ætla þær að létta lund miðbæjargesta með forsmekk af þeim skemmtilegu lögum sem við fáum að heyra á vortónleikum kórsins í maí.

Bryndís Ásmunds lýkur svo kvöldinu með sinni alkunnu snilld á Sviðinu. Hver veit nema hún gefi gestum smá forsmekk af þeirri veislu fyrr um kvöldið?

Groovís nýja ísbúðin í Ingólfi opnar með pompi og prakt þennan dag og þar verður ýmislegt skemmtilegt í boði, ís, kleinuhringir, kandýfloss og fleira skemmtilegt.

Inni í Mjólkurbúi, á veitingastöðum og í verslunum verða svo óvæntir gestir og uppákomur.

„Þetta er tilefni fyrir okkur Selfyssinga og aðra gesti að fara út, fagna komandi sumri, gera góð kaup og njóta í leiðinni. Við erum virkilega spennt að taka á móti okkar fólki á öðru kósýkvöldi miðbæjarins, sem er komið til að vera,“ segir Elísabet að lokum.

Nýjar fréttir