6.1 C
Selfoss

Brosandi börn í nýju skólahúsnæði

Vinsælast

Það var mikill gleðidagur hjá nemendum og starfsmönnum Stekkjaskóla miðvikudaginn 23. mars,  þegar fyrsti skóladagurinn var í nýju glæsilegu húsnæði skólans að Heiðarstekk 10 á Selfossi. Nemendur komu brosandi inn í skólann, fullir tilhlökkunar að byrja í ,,alvöru skóla“ eins og einn nemandi komst að orði.

Skólinn er fallegur og vel skipulagður og hafa fyrstu skóladagarnir gengið mjög vel. Nemendum og starfsmönnum líður vel á nýjum stað og nú er Sævar kokkur farinn að elda allan mat fyrir skólann ásamt sínu fólki.

Heimsvæði nemenda eru virkilega falleg og vel útbúin. List- og verkgreinastofurnar eru mjög flottar og er gleðilegt fyrir alla að fá nú loks góða aðstöðu fyrir listir- og handverk.

Ljósmynd: Stekkjaskóli.

Fyrsta skóladaginn komu gestir frá Fjölskyldusviði Árborgar í heimsókn og færðu starfsfólki og nemendum fallegan blómvönd í tilefni dagsins. Þar voru á ferðinni Heiða Ösp sviðsstjóri, Margrét Björk deildarstjóri stoðþjónustu, Daði fjármálasérfræðingur og Ólafur Rafnar forstöðumaður.

Skólabyggingin

Skólann hannaði arkitektastofan Hornsteinar og ÞG Verk sá um byggingingarframkvæmdir. Þessi fyrsti áfangi sem er á tveimur hæðum er 4.150 fermetrar. Byrjað er að byggja annan áfangi skólans sem verður um 4.000 fermetrar og er áætlað að taka hann í notkun haustið 2024.

Skólinn er hannaður sem teymiskennsluskóli þar sem hver árgangur er með svæði sem afmarkast af stóru vinnusvæði, lítilli kennslustofu og tveimur hópaherbergjum. Fullkomið eldhús er í mötuneyti skólans sem sem á að geta annað 500 nemenda skóla ásamt starfsfólki.  Í þessum fyrsta áfanga er jafnframt skrifstofuálma, list- og verkgreinastofur, frístundarými og kaffistofa starfsmanna. Fyrst um sinn mun skólinn nýta frístundarýmin en þegar annar áfangi verður tilbúinn flytur frístundinn Bjarkarból inn í skólahúsnæðið. Hún verður þangað til í færanlegu kennslustofunum á skólalóðinni. Í þessum áfanga er einnig hátíðarsalur sem verður tilbúinn í sumar.

Ljósmynd: Stekkjaskóli.

Skólastarfið

Stekkjaskóli tók til starfa í ágúst 2021. Fyrstu mánuðina fór starfsemin fram í frístundaheimili Vallaskóla, Bifröst. Í lok nóvember sama ár flutti skólinn í færanlegar kennslustofur.  Nú er skólinn kominn í fyrsta áfanga síns framtíðarhúsnæðis.

Á fyrsta skólaári Stekkjaskóla voru um 102 nemendur í 1.-4. bekk og 28 starfsmenn. Haustið 2022 fjölgaði mikið í skólanum og í dag eru 173 nemendur í 1.-5. bekk og 35 starfsmenn. Á næsta skólaári er gert ráð fyrir að nemendur verði um 230-250 í 1.-6. bekk.

Ljósmynd: Stekkjaskóli.

Mikil gróska hefur verið í skólastarfinu og eru starfsmenn að móta stefnu og áherslur skólans í  þróunarverkefni sem fékk styrk úr Sprotasjóði mennta- og barnamálaráðuneytisins.  Þróunarverkefnið fékk nafnið Stekkur til framtíðar – Að byggja upp lærdómssamfélag í nýjum grunnskóla. Verkefninu er stýrt af Ingvari Sigurgeirssyni fyrrverandi prófessor við HÍ stýrir ásamt skólastjórnendum. Nemendur og starfsmenn horfa glaðir fram á veginn og ætla að byggja upp gott og farsælt skólastarf í fallegu og notalegu umhverfi.

Ljósmynd: Stekkjaskóli.

Nýjar fréttir